Landsvirkjun og Rio Tinto á Íslandi hafa samþykkt viðauka við raforkusamning fyrirtækjanna frá árinu 2010. Samningurinn gildir í fimmtán ár – til ársins 2036.

„Niðurstaðan er báðum aðilum í hag og um leið eykur hún skilvirkni raforkukerfisins á Íslandi,“ er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í sameiginlegri tilkynningu fyrirtækjanna.

Harðar deilur hafa verið milli fyrirtækjanna um orkuverðið. Í fyrra kærði Rio Tinto Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins fyrir að misnota yfirburðastöðu sína á raforkumarkaði og hótaði jafnframt að loka álverinu í Straumsvík. Rio Tinto dregur nú þessa kæru til baka.

Ekkert er gefið upp um raforkuverðið frekar en í þeim samningi sem gilt hefur. „Samningurinn verður því ekki opinberaður að svo stöddu,“ er undirstrikað. Þó er tekið fram að grunnur raforkuverðsins hafi breyst.