Mikil lög­reglu­gæsla er við H10 Costa Adeje Palace hótelið á Tenerife þar sem um þúsund manns eru nú í sótt­kví vegna CO­VID-19 kóróna­veirunnar. Sjö Ís­lendingar eru meðal þeirra sem eru í ein­angrun á hótelinu. Stað­fest var að gestur hótelsins sem hafði dvalið þar í viku væri smitaður af veirunni í gær­kvöldi.

Gríðar­legur við­búnaður

Lífið gengur þó sinn vana­gang fyrir flesta ferða­langa sem staddir eru á Tenerife og náði Frétta­blaðið tali af Önnu Sig­rúnu Baldurs­dóttur, að­stoðar­manni for­stjóra Landspítalans, þegar hún var úti að hlaupa í grennd við um­rætt smit­hótel.

„Það er gríðar­legur við­búnaður í kring um hótelið,“ segir Anna. Lög­reglu­menn vakti inn­göngu­leiðir og séu á varð­bergi í kringum hótelið. „Það er fullt af sjón­varps­stöðvum og ljós­myndurum mætt fyrir utan hótelið.“ Fjöl­miðla­fárið í bland við tugi lög­gæslu­manna skapi undar­lega stemmningu. „Á­standið hérna er bara eins og í sirkus.“

Þrjár lög­reglurútur voru að koma að hótelinu þegar Anna var á leið til baka úr hlaupa­túr sínum.

Búið var að koma upp merkingum í kringum hótelið.

Finnur til með gestunum

Hún segist finna mikið til með fólkinu sem dveljist á hótelinu en sýndist gestir gera það besta úr á­standinu. „Það er búið að loka hótel­garðinum en ein­hverjir gestir voru búnir að koma sér fyrir við sund­laugar­bakkann núna í morgun. Þetta er samt ægi­legt fyrir blessað fólkið.“

Stað­fest var að fyrsta smit á Tenerife hafi greinst í gær­kvöldi og var sjúk­lingurinn, sem er ítalskur læknir, settur í ein­angrun í kjöl­farið. „Innan við 12 tímum frá stað­festu smiti var búið að ein­angra hótelið svo það er fátt meira hægt að gera varðandi stöðu fólksins.“

Líkur á dreifingu kvöldið áður

Ljóst er að gestir hótelsins munu þurfa að dvelja í sótt­kví næstu 14 daga. „Þetta er afar fjöl­mennt hótel og ó­heppi­legt að smit greinist þar. Það er greið­fært hérna á milli staða svo það er allt gert til að koma í veg fyrir frekari smit.“

Anna gerir þó ráð fyrir að ef ein­hverjir hafi smitast hafi það átt sér stað í gær­kvöldi. „Fólk var auð­vitað frekar á ferðinni í gær en aðra daga eftir að hafa loksins komist út þegar veðri tók að lægja.“ Fjöldi fólks hafði verið inn­lyksa í nokkra sólar­hringa vegna sand­storms sem reið yfir eyjarnar og bar með sér sand frá Sahara eyði­mörkinni.

Ljósmyndarar og sjónvarpsstöðvar eru á hverju horni við smithótelið.

Sótt­varnir í há­vegum höfð

Sem starfs­maður Land­spítalans er Anna með­vituð um mikil­vægi sótt­varna og þá sér­stak­lega á stundum sem þessum. „„Ég er mikil sótt­hreinsunar­kona svo það kemur mér á ó­vart að það sé ekki búið að dæla spritti úti hérna um allt.“

Sjálf leggur Anna aldrei spritt­laus í ferða­lög en hyggst nú leggja leið sína í næsta apó­tek til að fjár­festa í meira af þeim sótt­hreinsunar vökva. „Ég geri ráð fyrir að það muni allt seljast upp á næstu dögum.“

Fríið heldur á­fram

Ekki stendur annað til boða að mati Önnu en að halda fríi sínu til streitu. „Ég sé ekki að maður geti gert neitt annað í stöðunni, fyrir utan hefð­bundnar smit­varnir sem maður á alltaf að við­hafa,“ segir Anna og bendur tekur dæmi um hand­þvott , að hósta í handa­krika og forðast að um­gangast fjölda af fólki ef mögu­leiki er á því.

„Ég verið á­fram með­vituð um á­standið og vona að þeir taki þetta mjög föstum tökum og klári þetta, það er eina leiðin.“

Anna á hlaupum við smithótelið.