Yfir­völd á Spáni neyddust til að banna sjósund í gær á vin­sælum strand­stöðum á Sit­ges svæðinu vegna hættu á há­karla­á­rásum.

Þrír há­karlar hafa sést undan­farna daga á sundi í nágrenni við strendur á norðanverðum Spáni, síðast í gær við bað­strendurnar Fra­gata, Ribera, Bassa Rodona og Estanyol.

Strandirnar eru allar geysi­vin­sælar meðal ferða­manna, þar á meðal Íslendinga en Fréttablaðið hefur upplýsingar um nokkurn fjölda Íslendinga á svæðinu.

Sáust innan við 100 metra frá landi

Einn hákarlanna þriggja var á sundi innan við hundrað metra frá landi og vegna þess var á­kveðið að banna sjóböð á fyrrnefndum fjórum baðströndum. Þetta kemur fram í spænska miðlinum El Pais.

Hinn stórhættulegi hvítháfur í hópnum

Einn há­karlana þriggja er hvít­háfur (Great White) en stærstu há­karlar heims eru af þeirri tegund. Sami há­karl sást fyrir ör­fáum dögum rétt fyrir utan Gar­raf mitt á milli Sit­ges og Barcelona.

Hvít­háfurinn er talinn hættu­legastur allra há­karla en um hann segir á Vísinda­vefnum: „Þegar risar eins og hvít­háfurinn eiga í hlut er rétt að taka enga á­hættu, en hvít­háfurinn ber á­byrgð á flestum á­rásum á menn.“

Ófreskjan í bíómyndinni Jaws er af tegund týrháfa (Bull Shark)
Fréttablaðið/Getty

Í fréttum um málið kemur ekki fram af hvaða tegund hinir tveir há­karlarnir eru en fyrir nokkru síðan var Sant Ger­vasi ströndinni í Vila­nova i la Gel­trú lokað vegna tveggja blá­háfa (e. blue sharks). Þessi tegund hákarla er þó yfirleitt talin meinlaus og ekki hættuleg mönnum.

Sant Garvasi ströndin var svo opnuð aftur eftir að strand­verðir höfðu framið ítar­lega leit við ströndina og full­vissað sig um að engir há­karlar væru sjáan­legir.

Lokanirnar sem gripið var til í gær vörðu í rúma eina og hálfa klukkustund, frá 12.50 til 14.30.

UPPFÆRT : Ranglega var sagt að Hvítháfur og Mako væru af sömu tegund í fréttinni en það hefur verið uppfært. Einnig var tegundin í myndinni Jaws ranglega nefnd en hákarlinn í þeirri mynd var af tegundinni týrháfur (Bull Shark) en ekki hvítháfur (Great White).