Efri hluti sements­strompsins á Akra­nesi var felldur laust eftir klukkan 14 í dag. Fyrir­­hugað var að strompurinn yrði sprengdur klukkan 11 en vegna veðurs var á­­kveðið að fresta sprengingunni til 14. Neðri hluta strompsins þarf síðan að sprengja sér­­stak­­lega, eftir að brakið hafnaði á vírum sem stýrðu seinni sprengingunni. 

Fjöldi fólks kom saman til þess að fylgjast með sprengingunni en sökum tafanna flosnaði hratt úr hópnum, auk þess sem Akra­nes­bær á­kvað að sýna frá henni í beinni út­­sendingu. Strompinn átti að sprengja í gær en vegna veður­að­­stæðna var því frestað.

Atkvæðagreiðsla var haldin meðal íbúa í fyrra til þess að kanna afstöðu þeirra til þess hvort rífa ætti strompinn. 95 prósent íbúa vildu hann burt. Minnisvarði verður síðan gerður um strompinn. 

Beinu útsendinguna má sjá hér að neðan.