Fyrrverandi sendiherra Kína í Bandaríkjunum, Qin Gang, hefur tekið við sem utanríkisráðherra Kína. Qin Gang tók við af Wang Yi, sem hefur verið andlit utanríkisstefnu landsins síðan 2013.
Qin hefur verið sendiherra í Bandaríkjunum í rúmlega eitt og hálft ár. Hann fékk það verkefni að reyna að koma samskiptum landanna aftur í eðlilegt horf en þjóðirnar hafa átt í deilum undanfarin ár.
Nýja ráðherranum hefur verið lýst sem „stríðsúlfi“ sem er gælunafn gefið kínverskum diplómötum sem þekktir eru fyrir að vera harðorðir í garð vestrænna þjóða. Nafnið er tilvísun í kínversku spennumyndaseríuna Wolf Warrior.
Qin Gang sagði meðal annars árið 2020 að ímynd Kína á Vesturlöndum hefði versnað vegna þess að fjölmiðlar í Evrópu og Bandaríkjunum hefðu aldrei sætt sig við uppgang Kínverja.
Hann hefur einnig sagt að kínverska þjóðin hafi lítið að læra af hinum vestræna heimi.