Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þrátt fyrir nýsamþykkt lög til verndar uppljóstrurum og varnir gegn hagsmunaárekstrum séu skilaboðin frá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar ekki til þess að auka traust á stjórnmálum. Segir hún Samherja heyja stríð gegn almenningi.

„Þessa dagana á sér stað stríð sem opinberast æ meira á hverjum degi, stríð gegn almenningi, stríð gegn fjölmiðlafólki, listamönnum, stjórnmálafólki og fjölskyldum þeirra. „Okkar maður“ í ríkisstjórn er á útleið og fram fer val stríðsherra hans á nýjum manni í ríkisstjórn fyrir allra augum, fyrir okkar allra augum,“ sagði Helga Vala í sérstökum umræðum um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu á Alþingi í dag.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, var málshefjandi og hafa þingmenn notið tækifærið til að ræða um nýjustu vendingar í Samherjamálinu en Stundin og Kjarninn afhjúpuðu samtöl „skæruliðadeildar“ um áróðursherferð þeirra gegn blaðamönnum.

Helga Vala vísaði í viðtal Seðlabankastjóra við Stundina en þar sagði hann: „Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá.“ Minntist þingmaðurinn þess þegar stjórnarþingmenn ákváðu að stöðva athugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar. Líkt og Fréttablaðið greindi frá var mikil ósætti meðal nefndarmanna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en minnihluti nefndarinnar taldi málið ekki fullrannsakað og hafði óskað eftir frekari gestakomum og að aflað yrði frekari gagna í málinu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þá formaður nefndarinnar, sagði afstöðu meirihlutans bera merki um vanvirðingu fyrir réttindum og hlutverki minnihlutans á þingi, ýta undir grunsemdir um samtryggingu og leyndarhyggju, lítilsvirða sérstakt eftirlitshlutverk nefndarinnar og vera til þess fallin að veikja Alþingi og traust almennings á því.

Helga Vala sagði stjórnarþingmenn hafa beitt valdi sína til að stöðva téða rannsókn.

„Þegar nefndarfólk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill að fram fari rannsókn á tengslum hæstvirts sjávarútvegsráðherra við stjórnendur stórútgerðar, sem nú er að eigin sögn í stríði gegn mönnum, fyrirtækjum, fjölmiðlum, stjórnmálafólki og fjölskyldum þeirra, þá beita stjórnarþingmenn í nefndinni valdi sínu til að stöðva slíka rannsókn,“ sagði Helga Vala vék máli sínu að Landsréttarmálinu sem annað dæmi um spillingu.

„Þegar dómstólar fella dóma þess efnis að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipan sérvaldra dómara í Landsrétt, standa stjórnarliðar sérstakan vörð um ráðherrann hér í þingsal og meta stöðu ráðherrans í ríkisstjórn mikilvægri en vörn fyrir sjálfstæði dómstóla.