Karlmaðurinn, sem talinn er hafa myrt tvo í skotárás fyrir utan samkunduhús gyðinga í borginni Halle í austur­hluta Þýska­lands, birti myndband á streymisvefnum Twitch áður en hann hóf árásina.

Twitch er vinsæll vefur meðal rafíþróttamanna en hver sem er getur streymt viðburðum í beinni á þeirri síðu.

Í myndbandinu talaði hann linnulaust um að gyðingar væru undirrót alls ills. Hann sagðist afneita því að helför nasista gagnvart gyðingum í heimsstyrjöldinni síðari hafi átt sér stað. Einnig sagði hann femínisma vera ástæðuna fyrir því að fæðingartíðni hafi lækkað í Vestur-Evrópu.

Orðræða hans minnir óneitanlega á hinn 28 ára gamla Brenton Tarrant sem skaut 50 manns til bana í tveimur moskum í ný­sjá­lensku borginni Christchurch fyrr á árinu. Hann streymdi einnig myndbandi af árásinni á Facebook.

Lögregluyfirvöld hafa handtekið einn í tengslum við málið en ráðleggja fólki á svæðinu að vera á varðbergi.