Leikarar Borgarleikhússins munu spila spunaspilið fræga Dreka & dýflissur og streyma því á netinu næstkomandi laugardag. Vegna samkomubanns er ekki hægt að setja upp sýningar með hefðbundnum hætti og hefur því verið gripið til þess að „færa leikhúsið til fólksins“, eins og Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri komst að orði.

„Ég spilaði spunaspil mikið sem barn og unglingur og þetta umturnaði lífinu á sínum tíma,“ segir Björn Stefánsson sem mun stýra leiknum, sem svokallaður dýflissumeistari (DM). „Fyrir um þremur árum hóaði ég saman ýmsu ólíklegu fólki í spilahóp, leikurum, listamönnum og öðrum og hef haldið því áfram síðan.“

D&D kom fyrst út árið 1974 og olli miklum straumhvörfum. Á níunda áratugnum bættust spil á borð við Call of Cthulhu og Cyberpunk 2020 við í flóruna og unglingar víðs vegar um heim gátu gleymt sér dögum saman á háaloftum eða í kjöllurum með blað, blýant, teningasett og ímyndunaraflið að vopni.

Björn er nú að setja saman sögusviðið fyrir hetjurnar, en þær eru Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson. Verður þetta frumraun þeirra tveggja síðastnefndu. „Ég sé fyrir mér að þetta liggi vel fyrir leikaranum, að detta í spunann, leyfa sér að gera mistök, vera svolítið kjánalegur og hafa gaman,“ segir Björn og jafnframt að lykilatriðið í þessu sé skemmtunin sjálf. „Það er eitthvað fast í mannskepnunni. Eftir því sem við eldumst eigum við til, einhverra hluta vegna, að hætta að gera það sem okkur finnst skemmtilegt.“

Rétt eins og teiknimyndasögur og borðspil eru spunaspilin í miklum uppgangi. Nýjasta útgáfa D&D, sem kom út árið 2014, hefur selst betur en fyrri útgáfur og þættirnir Stranger Things, þar sem spilið kemur við sögu, spilla ábyggilega ekki fyrir. Björn segir spunaspilara hafa fært sér tæknina í nyt og leikjum sé nú streymt víða um heim. „Þetta er kjörið efni fyrir fólk að fylgjast með á netinu, annað hvort með fullri athygli eða með öðru auganu, því þetta getur tekið þrjá til fjóra tíma. Þarna er fólk að skapa flæði og skapa sögu saman í rauntíma. Maður týnir tímanum og amstur dagsins skiptir engu máli.“

Útfærsla Borgarleikhússins á streyminu sjálfu er nú í smíðum. „Við ætlum að leika okkur með þetta en rennum svolítið blint í sjóinn. Við höfum leikhúsið og búningageymsluna okkur til halds og erum að tína til hluti til að hafa á sviðinu,“ segir Björn. „Án þess að fara út í beint larp!“

D&D verður streymt á vef Borgarleikhússins klukkan 14 á laugardag.