Mikið er um streptókokkasýkingar hér á landi, þá sérstaklega hjá börnum. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki ástæðu til að hafa áhyggjur en hvetur þau sem finna fyrir einkennum til að leita til heilsugæslunnar.

„Streptókokkasýkingar koma alltaf upp á veturna en núna er í gangi streptókokkasýking sem reynst hefur erfitt að ráða við. Þetta er búið að vera svona í allan vetur,“ segir Sigríður Dóra.

Helstu einkenni streptókokkasýkingar eru hiti og mjög sár verkur í hálsi. Sýkingin er smitandi en samkvæmt Sigríði þó ekki þannig að fara þurfi í sóttkví eða eitthvað slíkt. „Bara passa að spritta og þvo hendur.“

Spurð að því hvort fólk þurfi sýklalyf við sýkingunni segir hún það algengt. „Allavega þau sem eru lasin,“ segir hún.