Barbra Streisand baðst í gær afsökunar á ummælum um Michael Jackson og tvo menn sem sakað hafa Jackson um að hafa brotið á sér kynferðislega í æsku. Sagði hún að hún hefði átt að vanda betur orðaval sitt og hrósaði mönnunum fyrir að stíga fram.

Eins og fjallað hefur verið um hefur Jackson heitinn verið borinn þungum sökum um að hafa misnotað unga drengi sem komu til hans á Neverland-búgarðinn fræga. Tveir menn, Wade Robson og James Safechuck, stigu fram í heimildarmyndinni Leaving Neverland og ræddu reynslu sína í miklum smáatriðum.

Streisand hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að láta þau ummæli falla að mennirnir tveir hefðu í æsku sinni verið „hæstánægðir“ með að vera á búgarðinum á þeim tíma sem brotin eiga að hafa átt sér stað. „Þetta drap þá ekki,“ sagði Streisand í viðtali við The Sunday Times.

Streisand birti afsökunarbeiðnina á Instagram síðu sinni þar sem hún biðst innilegrar afsökunar á því að hafa valdið sársauka með ummælum sínum. „Það var ekki ætlun mín að gera lítið úr reynslu þessara drengja. Eins og allir þolendur kynferðisofbeldis þurfa þeir að lifa með þessu alla sína ævi,“ sagði Streisand.