Einni með öllu á Akureyri, Sæludögum í Vatnaskógi og Innipúkanum í Reykjavík hefur nú verið aflýst.

Hið sama gildir um Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda á Patreksfirði og Hinsegin daga sem halda átti 4. til 9. ágúst.

Fyrirhugað var að hátíðirnar myndu fara fram um verslunarmannahelgina með breyttu sniði vegna farsóttarinnar.

Áður var búið að aflýsa Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Skipuleggjendur Einnar með öllu og Sæludaga tilkynntu um ákvörðunina á meðan blaðamannafundur stjórnvalda stóð yfir á ellefta tímanum.

Þar kynnti heilbrigðisráðherra hertar samkomutakmarkanir sem taka gildi strax á morgun. Verða fjöldasamkomur takmarkaðar við 100 manns og tveggja metra reglan tekin aftur í gildi.

Vildu ekki taka neina áhættu

„Við áttum fund með lögreglunni á Akureyri og bæjaryfirvöldum í morgun og það var algjör einhugur um að taka enga áhættu í þessari uggvænlegu stöðu sem upp er komin,“ er haft eftir Davíð Rúnari Gunnarssyni, skipuleggjanda Einnar með öllu, í tilkynningu.

Að sögn skipuleggjenda Sæludaga var í undirbúningi hátíð þar sem samkomutakmarkanir yrðu að fullu virtar og búið að gera aðrar ráðstafanir í fullu samræmi við tilmæli Embættis landlæknis.

„Það er aftur á móti mat stjórnar Skógarmanna KFUM að ekki sé lengur forsvaranlegt að halda fyrirhugaða fjölskylduhátíð í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru komnar upp á ný.“

Fréttin var uppfærð með upplýsingum um Innipúkann, Skaldborg og Hinsegin daga.