Lögreglan leitaði í gær uppi aðila sem strauk úr farsóttarhúsi.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að sá hafi átt að vera í sóttkví, hann hafi fundist skömmu eftir að tilkynning barst lögreglu og var fylgt aftur í farsóttarhúsið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögreglan hefur verið kölluð út vegna einstaklinga sem yfirgefa farsóttarhús á höfuðborgarsvæðinu. Í lok júlí var karlmaður handtekinn ofurölvi við Hlemm í miðbæ Reykjavíkur eftir að strokið úr farsóttarhúsi.

Öll þau sem dvelja á farsóttarhúsi hafa greinst með virkt COVID-19 smit og eiga að vera í einangrun en lögreglan tekur þó fram í dagbók sinni að aðilinn sem strauk hafi átt að vera í sóttkví en ekki einangrun.

Áður fyrr voru ferðamenn í sóttkví einnig skikkaðir í farsóttarhús en þessu var breytt í lok júlí þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra samþykkti nýja reglugerð vegna álags á farsóttarhúsum. Þetta var gert til að skapa rými fyrir þá sem smitaðir eru af COVID-19 en áður höfðu komið upp tilfelli þar sem smitaðir einstaklingar fengu ekki pláss og þurftu að dvelja í bílum sínum.