Börnum í þremur sveitarfélögum á Ströndum hefur frá aldamótum fækkað um meira en helming.

Nú er svo komið að aðeins tvö börn eru búsett í Árneshreppi og enginn leikskóli er starfandi á Drangsnesi í Kaldrananeshreppi. Oddvitar sveitarstjórna segja vörnina erfiða og að eitthvað stórkostlegt þurfi að koma til svo að þróunin snúist við.

Samanlagt búa á Ströndunum nú, í þessum þremur sveitarfélögum, um 600 manns. Langflestir þeirra búa í Hólmavík í Strandabyggð en í Strandabyggð allri búa um 450 manns. Jón Gísli Jónsson, oddviti hreppsnefndar Strandabyggðar, telur vörnina erfiða.

„Þetta er vont og erfitt. Eitthvað togar nú suður á höfuðborgarsvæðið. Þar eru auðvitað íþróttamöguleikar og afþreying sem minna er um hérna í fámenninu hjá okkur. Við teljum hins vegar kosti á móti,“ segi Jón Gísli sem telur að stöðu sinnar vegna þurfi hann að vera bjartsýnn. „Ég verð að horfa á framtíðina björtum augum og halda því fram að við verðum enn þá til. En með íbúaþróunina, þá er erfitt að vita hvað verður.“

Horfurnar eru öllu svartari í Kaldrananeshreppi þar sem aðeins 19 börn bjuggu í hreppnum árið 2018. Vitað er að á síðustu vikum hafi tvær fjölskyldur flutt úr hreppnum með börn og því er sú tala mun lægri nú.

Finnur Ólafsson oddviti segir tækifæri fyrir byggðina að rísa á ný.

„Ef allt gengur upp sem við erum að berjast fyrir þá verður öflugri byggð hér og gæti skapað um hundrað störf á svæðinu,“ segir Finnur. Þar séu norskir og íslenskir aðilar að skoða þann möguleika að hefja fiskeldi í sveitarfélaginu með nýrri tækni þar sem ekki verður um opið sjókvíaeldi að ræða.

Hins vegar er ljóst að þessi sveitarfélög eru í nauðvörn. Ekki er ólíklegt að heilsársbúseta leggist af á næstu áratugum í Árneshreppi. Aðeins rétt rúmlega fjörutíu manns búa þar nú og þarf lítið að gerast til að byggð þar þurrkist hreinlega út.

Drangsnes og Hólmavík sem tveir kjarnar gætu vissulega blómstrað en með fækkun í sveitunum í kring gæti róðurinn orðið þyngri. Bjartsýni virðist hins vegar ríkja meðal sveitarstjóranna.