Strákur í annarlegu ástandi gekk berserksgang um Árbæinn í gærkvöldi, elti hóp af börnum með hníf og ógnaði þeim. Þetta segir Elsa Margrét Víðisdóttir, íbúi í Árbæ, á Facebook síðu fyrir íbúa í Árbænum. Strákurinn á að hafa elt syni hennar og fleiri börn um hverfið, frá Árbæjarskóla og alla leið að verslun Kvikk við bensínstöð Orkunnar.

Málið var tilkynnt til lögreglu og er það til athugunar. Þetta staðfestir Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri lögreglustöðvarinnar við Vínlandsleið.

„Mér finnst ekki þægilegt að senda börnin mín út á kvöldin ef þetta er staðan.“

„Strákur í annarlegu ástandi elti syni mína og fleiri hér í Árbæ fyrr í kvöld, hann var með hníf og ógnaði þeim, þeir létu lögreglu vita og síðast þegar ég vissi var lögregla að leita hans. Synir mínir földu sig hér og þar þangað til hjálpin kom,“ skrifar Elsa á Facebook.

Hú segist þakklát starfsmanni Kvikk, en synir hennar fengu að bíða á stöðinni þar til hættan var liðin hjá. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem aðili í annarlegu ástandi ógnar börnum í Árbænum. Karl­maður á fer­tugs­aldri var hand­tek­inn og yf­ir­heyrður fyrir tveimur árum eft­ir að tveir 14 ára dreng­ir til­kynntu lög­reglu um að hann hefði ógnað þeim með hníf við Fylkisheimilið.

„Vonandi fer lögregla að ná utan um þennan líð sem virðist vera hér í hverfinu,“ skrifar Elsa.

„Mér finnst ekki þægilegt að senda börnin mín út á kvöldin ef þetta er staðan,“ segir Elsa Margrét í samtali við Fréttablaðið. Vinkona Elsu, sem býr rétt hjá Skalla, sjoppu í Árbænum, sá til barnanna fela sig fyrir unga manninum. Þá hafi hún hringt í Elsu, sem hafði samband við syni sína í kjölfarið.

Synir hennar sögðu unga manninn vera á bilinu 20 til 25 ára, og hafi þeir séð hann áður í hverfinu. Elsa segir að maðurinn hafi gripið í hálsmál sonar síns, otað hnífi framan í hann og beðið strákinn um að gefa upp kennitölu sína, sem hann gerði.

Þá náðu þeir að losa sig við hann og hringdu í lögregluna. Ungi maðurinn frétti af því og fór þá á eftir þeim og hótaði að drepa þá. Þá hafi þeir falið sig hjá bensínstöðinni Kvikk.

Íbúar Árbæjar veltu fyrir sér hvort umræddur aðili tengdist máli Ice Bón í Rofabæ, en í gær var gerð þar húsleit vegna meintrar fíkniefnasölu og var einn handtekinn. Lögregla lagði þar hald á meint fíkniefni og mögulegt þýfi.

„Það var farið þarna í húsleit vegna gruns um að það væri mögulega verið að skipta þarna með fíkniefni,“ sagði Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri lögreglustöðvarinnar við Vínlandsleið, í samtali við Fréttablaðið í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.