Mun fleiri stelpur en strákar eru ný­nemar í fram­halds­skólum landsins í upp­hafi þessa skóla­árs. Skóla­stjórn­endur virðast með­vitaðir um kynja­hallann en segja erfitt að út­skýra hvað veldur.

Sam­kvæmt tölum frá Hag­stofu Ís­lands fæddust 2.183 strákar og 2.097 stelpur árið 2005. Fæðingar­tíðni kynjanna út­skýrir því ekki muninn.

Gyða Margrét Péturs­dóttir, prófessor í kynja­fræði, segir þetta þróun sem hefur verið síðustu ár og mikil­vægt sé að skoða nokkra þætti sam­hengi við kynja­hlut­föll í fram­halds­skólum; náms­leiðir, bú­setu og stétt. Strákar séu lík­legri til að velja iðn­nám heldur en stelpur.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá markaðs- og kynningar­deild Tækni­skólans eru strákar í tals­verðum meiri­hluta ný­nema þar eða 79 prósent.

Mynd/Stefán Karlsson

„Alveg eins og við erum með mjög kynjaðan vinnu­markað þá erum við líka með mjög mikla kynjun þegar kemur að náms­vali,“ segir Gyða Margrét og bætir við að svona tölur segi aldrei alla söguna. Hug­myndir síðustu ára­tuga hafi verið að leggja hart að ungum konum að afla sér menntunar, „þá verði þeim allir vegir færir.“

Gyða segir unga drengi og karla hafa fengið skila­boð af allt öðrum toga, menntun sé ein­göngu fyrir konur og það sé kven­legt að leggja hart að sér í nám. Þetta sé dæmi um skað­lega karl­mennsku og það séu ýmsir menningar­bundnir þættir sem sé mikil­vægt að skoða.

Ingólfur Ás­geir Jóhannes­son, prófessor og deildar­for­seti, deild menntunar og marg­breyti­leika við Há­skóla Ís­lands, segir það ekki koma að ó­vart að fleiri stelpur fari í bók­nám. Hins vegar myndi hann vilja vita hvar hinir strákarnir séu. „Ég myndi kannski vilja að það væri kort­lagt.“

Af þeim tólf fram­halds­skólum sem Frétta­blaðið hafði sam­band við voru þrír með fleiri karl­kyns ný­nema í ár, þar á meðal Tækni­skólinn.