Búið er tæta upp hluta dönsku stráanna fyrir utan hinn margumtalaða bragga við Nauthólsveg 100. Stráin, sem heita á íslensku dúnmelur, voru sérstaklega flutt inn í tengslum við endurbyggingu braggans og svæðið þar í kring.

Töluvert hefur verið rætt um verkefnið og þá hafa borgaryfirvöld verið harðlega gagnrýnd vegna framúrkeyrslu við kostnað þess. Upphafleg kostnaðaráætlun við endurgerð braggans hljóðaði upp á 158 milljónir króna en eins og staðan er í dag nemur kostnaðurinn 415 milljónum króna.

Gróðursetning stráanna 800 fyllti mælinn hjá mörgum þegar í ljós kom að þau hefðu samtals kostað 757 þúsund krónur, eða 950 krónur stykkið. Uppsetningin sjálf kostaði síðan 400 þúsund krónur til viðbótar. Heildarkostnaður nam því 1.157 þúsund krónum samtals.

Síðar kom í ljós að dúnmelur yxi hér á landi. „Það er ótrúlegt að sækja þetta til Danmerkur þegar tegundin er til víða hér á landi,“ sagði Jón Guðmundsson plöntulífeðlisfræðingur í samtali við Fréttablaðið. Plöntuna væri til að mynda að finna við Hvaleyrarvatn.