Frá og með deginum í dag verður ekki hægt að nota prentuðu strætómiðana lengur. Þetta á bæði við um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. Strætó greindi frá þessu á samfélagsmiðlum í gær.

Strætó gefur viðskiptavinum sínum frest til 16. mars næstkomandi til þess að skipta gömlum strætómiðum yfir í inneign hjá greiðslukerfinu Klapp. Það var tekið í notkun í nóvember síðastliðnum.

Viðskiptavinum er bent á að fara með strætómiðana í móttöku Strætó á Hesthálsi 14 í Reykjavík. Einnig er hægt að senda miðana í pósti þar sem gæta þarf að nafn, símanúmer og netfang fylgi.