Vegna veðurs og ófærðar eftir veðurhaminn í gærdag og nótt munu ferðir Strætó á landsbyggðinni vera stöpular í dag. Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að enginn akstur verði á Norður- og Austurlandi, þar til annað verður tilkynnt.

Heldur áætlun á Suðurnesjum

Samkvæmt tilkynningunni eru bæði Þrengsli og Hellisheiði enn lokuð og því ganga leiðir 51 og 52 ekki fyrr en annað verður tilkynnt. Akstur á Suðurnesjum er aftur á móti á áætlun. Leið 57, sem alla jafna ekur frá Reykjavík til Akureyrar, mun ekki aka lengra en í Borgarnes.

Enginn akstur verður á Snæfellsnesi og Norður- og Austurlandi. Greiðfært er innan bæjar í Reykjavík og því gengur Strætó eftir áætlun þar.