Öflug sprening varð í strætisvagni í miðborg Stokkhólms skömmu fyrir hálf tólf að staðartíma, klukkan hálf ellefu að íslenskum tíma. Ökumaður vagnsins er slasaður.

Yfirmaður björgunaraðgerða hjá slökkviliðinu í Stokkhólmi greinir frá því að sprenging hafi orðið í vagninum. Slökkvilið var nýkomið á vettvang þegar rætt var við fulltrúa þess og eru aðstæður enn óljósar. Myndir og myndbrot af alelda vagninum má sjá á samfélagsmiðlum.

Aftonbladet hefur eftir heimildum innan lögreglunnar að líklega hafi strætisvagninn ekið á hæðarslá sem markar hæð undirganga skammt frá þar sem atvikið átti sér stað. SVT hefur eftir lögreglunni að ekkert bendi til þess að um vísvitandi verk sé að ræða.

Stór hvellur ku hafa heyrst og má enn heyra sprengingar, að sögn vitna.

Greint er frá því að enginn farþegi var um borð í strætisvagninum, en óljóst er með ástand ökumannsins, en SVT staðfestir að hann hafi slasast og njóti aðhlynningar á sjúkrahúsi. Tveir sjúkrabílar voru sendir á vettvang.

Fréttin verður uppfærð.

Lögreglan í Stokkhólmi beinir umferð frá miðborginni.