Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna veðurs sem hefst í nótt í samráði við lögreglustjórana á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Búist er við því að hvassviðri austan og suðaustan hefjist um eittleytið í nótt og að skafrenningur valdi lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Farið var yfir stöðuna og möguleg viðbrögð á samráðsfundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag ásamt viðbragðsaðilum um allt land. Í tilkynningu Almannavarna um veðrir kemur fram að líkleg sé að veður muni hafa veruleg áhrif á samgöngur á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Þá megi ætla að samgöngutruflanir muni hafa áhrif á ferðalög ferðafólks á landinu. Grundvallaratriði sé að þau sem verði að fara á milli staða fylgist með veðurspá og færð vega.

Þegar er orðið ljóst að röskun verður á flugi í kringum áramótin. Jafnframt hefur verið tilkynnt um mögulega skerta þjónustu Strætó á gamlársdag vegna veðurs. Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að hugsanlega muni ferðir strætisvagna truflast vegna veðurs og færðar bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Strætófarþegar eru minntir á að fylgjast með tilkynningum og leiðum ´æa heimasíðu Strætó og á Twitter-síðu þeirra.