Á sjöunda tímanum í Kópavogi í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um umferðarslys þar sem strætó keyrði á unga stúlku á reiðhjóli. Stúlkan hafði snögglega farið út á götuna með þeim afleiðingum að strætó keyrir á hana. Stúlkan kenndi sér eymsla í vinstri hönd, en í samráði við sjúkraflutningamenn var hún ekki flutt á slysadeild. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá bar lögreglu tilkynning um líkamsárás á ellefta tímanum í gærkvöldi í Kópavogi, þar sem maður verður fyrir líkamsárás frá tveimur aðilum. Annar aðilinn, kona, er sögð hafa verið í bifreið þolanda og ráðist þar á hann með þeim afleiðingum að hann keyrir utan í vegrið. Maður hafði síðan komið að, opnað bílstjórahurðina og slegið ökumanninn ítrekað í höfuðið.

Parið hafi síðan farið í annarri bifreið af vettvangi. Vitni að málinu sýndu lögreglu upptöku af atvikinu sem hafði verið tekið upp á síma. Þá segir ekki um líðan þolanda.

Í miðborg Reykjavíkur var tilkynnt um ölvaðan ökumann sem ók síðar á kyrrstæða bifreið á miðri akbraut. Lögregla hóf eftirför þar sem ekið var víða um Reykjavík í Hafnarfjörð og þaðan í Kópavog þar sem lögregla missti sjón af bifreiðinni.

Ökumaður ók mjög hratt allan tímann og fór mest yfir 200 km/klst. Þá ók hann yfir gatnamót á rauðu ljósi sem og fleiri umferðarlagabrot.

Vitað er hver ökumaðurinn er, en hann er réttindalaus og var í afar annarlegu ástandi.

Þá voru voru tveir ökumenn stöðvaðir í Kópavogi um klukkan eitt í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna.