Strætó bs. hafnar ásökunum Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, um að brotið sé á réttindum og kjörum starfsmanna sinna. Fyrirtækið birti launaseðla tveggja starfsmanna þar sem sjá má að rukkað er fyrir húsaleigu.

Borgarfulltrúinn birti færslu á Facebook í gær þar sem hún sakaði Strætó um „níðingsskap gagnvart bílstjórum“. Í færslunni vísaði hún meðal annars í launaseðil erlends bílstjóra hjá fyrirtækinu sem hún hafði undir höndum. Sagði hún að Strætó hafi innheimt húsaleigu og flugmiða af manninum sem fyrirtækið hafi ráðið í gegnum starfsmannaleiguna Elju.

Sjá einnig: „Við sjáum að þetta er ekki alveg eðli­legt“

Strætó segir fyrirtækið ekki rukka fyrir húsaleigu í dag í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla. Með yfirlýsingunni fylgir afrit af launaseðlum tveggja erlendra starfsmanna fyrirtækisins sem ráðnir voru í gegnum starfsmannaleiguna Elju.

Þar kemur fram að rukkað hafi verið fyrir húsaleigu upp á 70 og 75 þúsund krónur hjá starfsmönnunum sem um ræðir. Strætó kveðst almennt ekki viljað hafa farið þá leið.

Húsaleiguliður á launaseðlum

„Umræddir starfsmenn voru með skriflegan húsaleigusamning við Elju þar sem fram kom að húsaleiga yrði dregin af launum. Í ljósi aðstæðna og að starfsmenn samþykktu frádráttinn skriflega, var tekin ákvörðun að greiðsla á húsaleigu færu í gegnum laun í þessu undantekningar tilviki.“

Í kjölfarið hafi stór hluti umræddra starfsmanna sótt um áframhaldandi vinnu hjá Strætó. Af þeim voru fjórir fastráðnir og eru þeir búnir að koma sér fyrir í húsnæði á eigin vegum.

Starfsmennirnir voru upprunalega ráðnir í gegnum Elju en með laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Strætó, líkt og aðrir starfsmenn, að því er segir í yfirlýsingunni.

Þar segir að Strætó hafi þurft að fjölga bílstjórum í kjölfar aukinnar þjónustu, með auknum aksturstíma og tíðari ferðum.

„Þessar breytingar kölluðu á 50 ný stöðugildi yfir sumartímann. Mannauðssvið Strætó leitaði ýmissa leiða til þess að afla umsækjanda, m.a. með auglýsingum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, samvinnu við innlendar ráðningarþjónustur, ásamt því að leita til Vinnumálastofnunar og Virk.“

Segja ekki brotið á kjörum og réttindum

Þrátt fyrir það hafi einungis tekist að manna 20 stöður. „Strætó fékk því aðstoð frá starfsmannaþjónustu Elju til þess að manna þau 30 stöðugildi sem upp á vantaði í tímabundna ráðningu.“

Farið er yfir meðalsamsetningu launa þeirra starfsmanna sem um ræðir í yfirlýsingunni frá Strætó. Föst mánaðarlaun séu 328.499 krónur. Meðal vaktaálag 100 þúsund krónur og áunnið orlof og yfirvinnuorlof 74 þúsund að meðaltali. Meðaltal yfirvinnu sé um 170 þúsund krónur og heildarmánaðarlaun því að meðaltali rúmlega 672 þúsund.

Að lokum segir að Strætó hafni ásökunum Sönnu að brotið sé á réttindum og kjörum starfsmanna. Þá býður framkvæmdastjóri félagsins, Jóhannes Rúnarsson, henni „að koma í heimsókn og kynna sér starfsemi fyrirtækisins“.

Launaseðlarnir sem Strætó birti.