Strætó hefur ákveðið að stytta tímabundið þjónustutíma á kvöldin á völdum leiðum innan höfuðborgarsvæðisins en að því er kemur fram í tilkynningu frá Strætó er það vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Breytingin tekur gildi frá og með deginum í dag.
„Samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar og skert starfsemi veitingastaða, skemmtistaða og annarra þjónustuaðila hefur haft mikil áhrif á farþegafjölda hjá Strætó seint á kvöldin,“ segir í tilkynningu um málið.
Breytingar hafa verið gerðar á leiðum 2 til 7, 15, 18, 19, og 36, þar sem síðustu ferðum hefur verið flýtt. Allar breytingar má finna á vef Strætó.