Strætó hefur horfið frá því að skylda farþega til að bera andlitsgrímur um borð í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta staðfestir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við Fréttablaðið.

Athygli vekur að þetta gengur í berhögg við tilkynningu Strætó í gær þar sem greint var frá því að grímulausum farþegum yrði ekki hleypt um borð í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu frá og með hádeginu í dag.

Jóhannes segir þessa breytingu koma til í kjölfar fundar forsvarsmanna Strætó með sóttvarnaryfirvöldum í dag þar sem farið var yfir málin.

Tilkynning á vef Strætó á fjórða tímanum í dag.
Mynd/Skjáskot

Lögðu ólíkan skilning í hugtakið almenningssamgöngur

„Það var þeirra skilningur að innanbæjaralmenningssamgöngur eins og þetta er á höfuðborgarsvæðinu væru þetta það stuttar ferðir að meðaltali að það sé engin þörf á grímum nema fólk vilji það sjálft.“

Annað gildi um utanbæjarferðir Strætó þar sem ferðatími sé lengri en hálftími.

Fram kom á blaða­manna­fundi stjórnvalda í gær að þar sem ekki væri hægt að tryggja tveggja metra fjar­lægð á milli ó­tengdra ein­stak­linga væri þess krafist að fólk bæri and­lits­grímur.

Í því samhengi voru almenningssamgöngur sérstaklega nefndar til sögunnar og gáfu stjórnendur Strætó út í kjöl­farið að grímuskylda næði til allra ferða á höfuðborgarsvæðinu. Sú ákvörðun reyndist byggð á misskilningi.

„Menn voru að flýta sér þarna og eins og fram kom á upplýsingafundinum í dag þá var ekki búið að fullmóta allar tillögur,“ segir Jóhannes.