Þingmenn Pírata þau Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tóku sér stöðu við hlið Bergþórs Ólasonar, Klaustursmanns og þingmanns Miðflokksins, þegar hann flutti ræðu um samgönguáætlun á Alþingi nú rétt í þessu.

Þau báru svartar húfur sem á stóð FO, sem er skammstöfun sem stendur fyrir „Fokk ofbeldi“. Þingmennirnir eru á meðal þeirr sem gagnrýnt hafa þingmenn Miðflokksins harðlega fyrir að taka sæti á þingi á nýjan leik, eins og ekkert hafi í skorist. Bergþór var einn af þeim sem mest hafði sig frammi á Klaustur bar í nóvember, þegar samtal þingmanna var tekið upp.

Bergþór lét uppákomuna ekkert á sig fá.

Húfurnar eru á vegum UN Women á Íslandi, en þær verða seldar til 8. febrúar. Á vefsíðu UN Women segir meðal annars: „Hingað og ekki lengra – byltingin gegn kynbundu ofbeldi er hafin. Ofbeldi gegn konum og stúlkum er útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum í dag. Konur úr ólíkum stéttum hafa stigið fram hér á landi og víða um heim og lýst kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og misbeitingu valds sem þær hafa upplifað. Kynbundið ofbeldi er heimsfaraldur og þrífst í öllum samfélögum heimsins og innan allra stétta.“