Fjöldi mistaka leiddu til þess að árásin á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar fór eins illa og raun bar vitni. Upplýsingar um mögulega árás komust ekki til skila og ekki var nægilega vel staðið að undirbúningi lögreglunnar. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu öldungadeildar.

Á samfélagsmiðlum deildi fólk færslum þar sem kallað var eftir ofbeldi á þinghúsið. Þá var deilt kortum af þinghúsinu sem sýndu meðal annars gangakerfi undir húsinu. Einhverjir töluðu um að þeir væru búnir undir stríð. Á Twitter voru stuðningsmenn Donald Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna, að hvetja fólk til að mæta með vopn og storma þinghúsið.

Þessar færslur voru ekki taldar gefa til kynna raunverulega hættu heldur var áætlað að fólk væri aðeins að nýta stjórnarskrárbundinn tjáningarrétt sinn.

Upplýsingaóreiða og forystuleysi

Reynt var að vara lögregludeild þinghússins við yfirvofandi árás en upplýsingarnar náðu aldrei nægilega vel til skila. Þar sem lögreglan við þinghúsið fékk aldrei nauðsynlegar upplýsingar um hættuna kölluðu þær heldur ekki á auka mannafla fyrr en eftir að árásin var hafin.

Í ofanálag bilaði samskiptakerfi deildarinnar á meðan á árásinni stóð og sem olli því að lögreglumenn stóðu eftir í átökunum án nokkurrar forystu.

Uppreisnarmenn komust hratt í gegnum varnirnar og brutu sér leið inn í þinghúsið. Lögreglur á framlínunni urðu fyrir efnabrunum, beinbrotum og heilaskaða meðal annarra áverka. 140 lögreglur tilkynntu um áverka og þrjár létust í kjölfar árásarinnar.

,,Stop the steal"

Árásin á þinghúsið kom í kjölfar þrunginna forsetakosninga á milli Joe Biden og Donald Trump. Lengi var mjótt á munum milli frambjóðenda en þarna var talið ljóst að Biden myndi sigra. Trump hélt því fram að um samsæri væri að ræða og hvatti stuðningsmenn sína til að koma í veg fyrir „stuldinn“.

Trump hélt ræðu 6. janúar 2021 sem hann nefni „Save America“ en þar söfnuðust tugir þúsunda til að sýna honum stuðning. Hópurinn hélt leið sína að þinghúsinu eftir að ræðunni lauk. Í framhaldinu hófst viðamesta árás á þinghús Bandaríkjanna í 200 ár og töpuðu sjö manns lífið í átökunum.