Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um að kviknað hafi í bíl á sjöunda tímanum í dag en bíllinn var staddur milli bensínstöðvar í Álfheimum og Glæsibæs.

„Þegar við komum á staðinn þá var bíllinn alelda og það var stórtjón á honum, ef hann er ekki bara ónýtur,“ segir varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Fréttablaðið.

Enginn slasaðist við brunann en einn maður var inni í bílnum þegar fór að rjúka úr honum og kom hann sér út í kjölfarið. Slökkvilið hefur nú lokið störfum á vettvangi.

Um er að ræða annað tilfellið í dag þar sem tilkynnt er um alelda bíl á höfuðborgarsvæðinu en eldur kviknaði í sendiferðabíl á Miklubraut, skammt frá göngubrúnni á milli Skeifunnar og Sogavegar, á níunda tímanum í morgun.

Miklubraut var lokað á meðan slökkviliðsfólk var að störfum en slökkvistarf gekk vel. Engin slys urðu á fólki vegna eldsins.