Að minnsta kosti tugmilljóna króna tjón hefur orðið á fjölda hótela hér á landi sem hefur þurft að loka um lengri eða skemmri tíma á tímum kóróna­veirufaraldursins. Skaðinn er mestur hjá Íslandshótelum sem reka 17 hótel vítt og breitt um landið, en þegar minnst lét, var aðeins eitt hótel á vegum keðjunnar í fullum rekstri, Grand hótel í Reykjavík.

„Lokanirnar hafa leikið okkur grátt,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, „og tjónið leikur á tugum milljóna króna í okkar tilviki.“ Hann nefnir bæði kaldavatnstjón og hitavatnstjón, en ýmist hafi leiðslur gefið sig á nokkrum hótelanna eða varmadælur látið undan.

„Einna verst var þetta á Hótel Heklu á Suðurlandi, en þar hreinlega soðnaði heilt starfsmannahús, ef svo má segja, með aðstöðu fyrir tólf manns eftir að heitavatnslögn gaf sig,“ segir Davíð Torfi.

Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá, tryggingafélagi Íslandshótela, segir að það hafi komið sínum samstarfsmönnum á óvart hversu mörg og mikil tjónin hafi verið. „En þetta kennir okkur nýja lexíu, það þarf að fylgjast grannt með húsnæði sem er ekki í notkun.“

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center hótela.

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center hótela, sem var á tímabili með sjö af átta hótelum fyrirtækisins í miðborg Reykjavíkur lokuð frá því farsóttin byrjaði, segist vera að glíma við eftirmál nokkurra tjóna. „Sýnu verst var þegar fraus í öllum niðurföllum á þaki eins hótelsins sem var lokað með þeim afleiðingum að efsta hæð þess varð umflotin vatni.“

Þar fyrir utan hafi verið brotist inn á hótel keðjunnar sem ekki hafi verið í rekstri og tölvum stolið og skemmdir unnar á innanstokksmunum.

Ingólfur Haraldsson, framkvæmdastjóri Icelandair hótelanna, þekkir til sömu rauna og Kristófer, en á tímabili voru aðeins þrjú af níu heilsárshótelum keðjunnar í rekstri.

„Það hafa verið tíð skemmdarverk fyrir utan þau hótel okkar sem hafa verið lokuð og allnokkrar tilraunir gerðar til þess að brjótast þar inn, en að öðru leyti hefur eftirlitið virkað.“