Samstarfsverkefnið Kynin og vinnustaðurinn var kynnt í Háskóla Íslands í gær. Um er að ræða könnun þar sem staða, upplifun og líðan starfsfólks í fyrirtækjum verður skoðuð og hvort þar megi greina mun eftir kyni. Að verkefninu koma Viðskiptaráð, Empow­er, Gallup og Háskóli Íslands.

„Ef horft er á kynjahlutfall stjórnenda á vinnumarkaði þá sést að það hallar mjög á konur þar,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnandi og meðeigandi Empower. „Tölurnar endurspegla til dæmis ekki brautskráningar úr háskóla en þar hafa konur verið að útskrifast jafnmargar ef ekki fleiri en karlar í einhver tuttugu ár.“

Verkefnið fer fram með tvenns konar móti. Annars vegar verður spurningalisti lagður fyrir starfsfólk í um 200 fyrirtækjum sem eiga aðild að Viðskiptaráði. Þar verður líðan og upplifun fólks af vinnustöðum skoðuð með sérstöku tilliti til kyns.

Þá verður staða kynjanna í stjórnunarlögum fyrirtækjanna einnig tekin saman til þess að miðla því hvort og þá hvernig halli á eftir kynjum.

„Við erum að skoða þrjú lög – forstjóra, framkvæmdastjórn og millistjórnendur,“ segir Þórey. „Við vildum hafa einn stað þar sem allir geti skoðað hvernig kynjaskiptingin sé í stjórnunarlögum á Íslandi og hver þróunin er á milli ára.“

Árlegt verkefni

Verkefnið mun fara fram árlega svo hægt verði að sjá hvort breytingar eigi sér stað til lengri tíma litið. „Ég hef bjargfasta trú á því að þegar við byrjum að greina þetta og sjáum hvað er að, þá muni þetta vonandi breytast til batnaðar,“ segir Þórey. „Það sem við þekkjum, því getum við breytt.“

Þótt enginn tímarammi sé á verkefninu segir Þórey að þetta sé langtímaverkefni sem verði útvíkkað eftir því sem á líður til að skoða aðrar breytur sem hafa áhrif á fjölbreytni. „Ein augljós breyta í framtíðarsýninni er til dæmis að kanna þessa þætti út frá uppruna. Markmiðið er að vinnustaðamenningin ýti undir fjölbreytni þannig að við hámörkum vellíðan og árangur teyma.“

Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á opnum fundi í maí og með kynningarátaki. „Ég býst ekki við neinu öðru en að þetta fái góð viðbrögð,“ segir Þórey. „Ég hef séð það í starfi mínu hjá Empower að það er mikill áhugi fyrir að auka fjölbreytileika. Fólk er farið að gera miklu meiri kröfur um vinnustaðinn sinn í dag en áður.“