Landhelgisgæslan vakti athygli á því um helgina að stækkandi straumur myndast nú með fullu tungli og verður stórstreymi við Íslandshafnir í dag. Sjávarfallaútreikningar gerðu ráð fyrir að flóðhæð yrði 4,5 metrar í Reykjavík en áhlaðandi af völdum hafáttar og lægri loftþrýstings getur aukið við flóðhæðina.
Guðmundur Birkir Agnarsson sjómælingamaður hjá Landhelgisgæslunni, segir að þrátt fyrir hækkandi sjávarstreymi sé ólíklegt að þetta muni leiða til sjávarflóða.
„Það var nokkuð þung ölduspá suðvestan og sunnan til á landinu. Sem átti að vera í nokkuð skamma stund í gær sunnudag. En það var samt ekki þannig að við hefðum áhyggjur af því að þetta væri að ganga á land yfir varnargarða eða upp á bryggjur. Þetta gaf það ekki til kynna,“ segir Guðmundur Birkir en stífari vindur varð um helgina en spáin sagði til um.

„En það var ekki þannig að það tækju að byggjast upp þessi sjávarflóð sem við höfum stundum séð,“ segir Guðmundur Birkir sem segir að það stefni í stórstreymi í hærra lagi. „Í þessu tilviki voru útreikningar okkar fyrir stórstreymið í morgun að munur á flóði og fjöru væru 4,5 metrar. En það er í hærra lagi yfir árið. Spáin á föstudaginn var engin aftakaspá sem var annað en raunin varð í gær. Það var ekki búið að sjá það veður fyrir á föstudaginn,“ segir hann.
Vond spá fyrir kvöldið
„Þegar það stefnir í stórstreymi þá fylgjumst við með veðurspám og sjólagi, hvernig alda byggist upp í úthafinu. Þá fylgjumst við mikið með loftþrýstingi þar sem með lágum loftþrýstingi hækkar sjórinn líka. Þannig að þetta tengist allt saman,“ segir Guðmundur Birkir en gert er ráð fyrir talsverðu veðri í kvöld.
„Það er að koma lægð í kvöld og það er suðaustan átt sem þetta byrjar á. En svo snýr vindáttin sér í suðvestur á morgun. Þarna getur byggst upp talsverð alda,“ segir Guðmundur Birkir.
Mánaðarlegur viðburður
Stórstreymi er þegar sól, tungl og jörð mynda beina línu en sól og tungl þurfa þó ekki að vera sömu megin við jörðina til þess að slíkt gerist. Stórstreymi verður yfirleitt einum til tveimur dögum eftir fullt tungl.
„Í raun og veru er það þannig að stórstreymt er tvisvar í mánuði. En það er í kjölfarið á nýju tungli og fullu tungli og við fylgjumst alla jafna með þegar að þetta ástand varir því með stórstreyminu verður há flóðið hærra heldur en gerist og gengur. Þetta gengur í náttúrulegum bylgjum,“ segir Guðmundur Birkir.
Hægt er að kynna sér málið frekar í ritinu Sjávarfallatöflur, sem Landhelgisgæslan gefur út á hverju ári. Þar má finna sjávarfallaspár fyrir flestar hafnir landsins. Í ritinu eru birtir útreikningar á tíma og hæð flóðs og fjöru í fimm höfnum sem skilgreindar eru sem aðalhafnir fyrir útreikningana. Hafnir þessar eru Reykjavík, Ísafjörður, Siglufjörður, Djúpivogur og Þorlákshöfn. Í ritinu eru leiðréttingatöflur til að reikna út mun á tíma og flóðhæð annarra hafna út frá aðalhöfnum.