Flugfreyjufélag Íslands hafði betur gegn Icelandair í dag er Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu fyrirtækið braut gegn ákvæði kjarasamnings við FFÍ með því að fara ekki eftir starfsaldri við afturköllun uppsagna í lok júlí 2020.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að um fullnaðarsigur hafi verið að ræða.
„Við fögnum þessari niðurstöðu því hún er alveg í samræmi við okkar málatilbúnað og okkar túlkun á þessu ákvæði í kjarasamningum sem við vorum að deila um,“ segir Guðlaug.
„Þetta þýðir í raun að það var ólögmæt uppsögn hjá 69 aðilum. Það hefði átt að afturkalla uppsögnina þeirra og endurráða þau en það var gengið fram hjá þessum manneskjum,“ bætir Guðlaug við.
Spurð um framhaldið segir Guðlaug að stjórn FFÍ muni ákveða næstu skref í sameiningu.
„Við vorum bara að fá dóminn í hendurnar en stjórn félagsins mun koma saman og skoða næstu skref. Þetta er allavega stórsigur í þessu máli þar sem var sannarlega brotið á réttindum þessa fólks,“ segir Guðlaug.
Spurð um hvort það verði ekki rætt við stjórnendur Icelandair og mögulega krafist bóta segir hún það líklegt.
„Mér þykir það líklegast í framhaldinu en þetta eru bara fyrstu skrefin. Við erum að lesa okkur í gegnum þetta og ákveða hvað framhaldið verður og svo verður fundað með þeim aðilum sem eru hluti að málinu.“
Spurð um hvort starfsmennirnir sem var gengið fram hjá séu komnir til starfa núna segir Guðlaug flestir af þeim ekki að vinna hjá Icelandair.
„Ég hef ekki nákvæma tölu á því en ég myndi segja að flestir af þeim séu ekki í vinnu.“