Flug­freyju­fé­lag Ís­lands hafði betur gegn Icelandair í dag er Fé­lags­dómur komst að þeirri niður­stöðu fyrir­tækið braut gegn á­kvæði kjara­samnings við FFÍ með því að fara ekki eftir starfs­aldri við aftur­köllun upp­sagna í lok júlí 2020.

Guð­laug Lín­ey Jóhanns­dóttir, for­maður Flug­freyju­fé­lags Ís­lands, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að um fullnaðar­sigur hafi verið að ræða.

„Við fögnum þessari niður­stöðu því hún er alveg í sam­ræmi við okkar mála­til­búnað og okkar túlkun á þessu á­kvæði í kjara­samningum sem við vorum að deila um,“ segir Guð­laug.

„Þetta þýðir í raun að það var ó­lög­mæt upp­sögn hjá 69 aðilum. Það hefði átt að aftur­kalla upp­sögnina þeirra og endur­ráða þau en það var gengið fram hjá þessum mann­eskjum,“ bætir Guð­laug við.

Spurð um fram­haldið segir Guð­laug að stjórn FFÍ muni á­kveða næstu skref í sam­einingu.

„Við vorum bara að fá dóminn í hendurnar en stjórn fé­lagsins mun koma saman og skoða næstu skref. Þetta er alla­vega stór­sigur í þessu máli þar sem var sannar­lega brotið á réttindum þessa fólks,“ segir Guðlaug.
Spurð um hvort það verði ekki rætt við stjórnendur Icelandair og mögulega krafist bóta segir hún það líklegt.

„Mér þykir það lík­legast í fram­haldinu en þetta eru bara fyrstu skrefin. Við erum að lesa okkur í gegnum þetta og á­kveða hvað fram­haldið verður og svo verður fundað með þeim aðilum sem eru hluti að málinu.“

Spurð um hvort starfs­mennirnir sem var gengið fram hjá séu komnir til starfa núna segir Guð­laug flestir af þeim ekki að vinna hjá Icelandair.

„Ég hef ekki ná­kvæma tölu á því en ég myndi segja að flestir af þeim séu ekki í vinnu.“