Demókratar munu stjórna báðum deildum Bandaríkjaþings næstu tvö árin en báðir frambjóðendur þeirra í Georgíu fóru með sigur af hólmi í kosningunum til öldungadeildarinnar. Demókratar eru einnig með meirihluta innan fulltrúadeildarinnar og geta þeir því komið ýmislegu í verk næstu árin.

Kosið var um tvö sæti, eitt í venjulegum kosningum og eitt í sérstökum kosningum til að fylla sæti þingmanns Repúblikana sem sagði af sér árið 2019 vegna heilsu. Kosið var um sætin í nóvember en þar sem enginn frambjóðandi náði 50 prósent atkvæða þá var kosið aftur í Georgíu í gær.

Warnock og Ossoff tryggja sér sæti

Greint var frá því fyrr í dag að Raphael Warnock hafi haft betur gegn Kelly Loeffler, sitjandi þingmanni Repúblikana, í sérstöku kosningunum og fyrr í kvöld lýsti AP fréttastofan því yfir að Jon Ossoff hafi haft betur gegn David Perdue, þingmanni Repúblikana, í venjulegu kosningunum.

Þegar búið er að telja 98 prósent atkvæða er Warnock með tæplega 65 þúsund atkvæða forskot á Loeffler, eða 1,4 prósent, og Ossoff með rúmlega 27 þúsund atkvæða forskot á Perdue, eða tæplega 0,6 prósent sem þýðir að Perdue getur ekki farið fram á endurtalningu. Til samanburðar þá sigraði Biden ríkið með tæplega 12 þúsund atkvæðum.

Warnock og Ossoff fóru með sigur af hólmi í dag. Warnock er fyrsti svarti öldungadeildarþingmaðurinn úr röðum Demókrata sem er kjörinn í suðurríkjunum og Ossoff er yngsti öldungadeildarþingmaðurinn til að ná kjöri frá því að Joe Biden var kjörinn.
Fréttablaðið/Getty

Repúblikanar eru nú með 50 þingmenn á móti 48 þingmönnum Demókrata en tveir óháðir þingmenn bætast þar við. Þegar kemur til jafnteflis á varaforseti Bandaríkjanna úrslitaatkvæðið. Demókratar eru því vel settir næstu tvö árin en Warnock mun sitja til 2022 og Ossoff til 2026.

Óeirðir í Washington

Nýkjörið Bandaríkjaþing kom síðan saman í dag til þess að telja atkvæði kjörmanna til forseta og þar með staðfesta kjör Joes Biden en kjörmennirnir greiddu atkvæði í desember. Biden fékk þar alls 306 kjörmenn en 270 kjörmenn þarf til að vinna kosningarnar. Umræðunum er ekki enn lokið.

Undir venjulegum kringumstæðum væri hlutverk þingsins formsatriði í þeim málum en eftir umdeildar kosningar er staðan önnur. Trump neitar enn að játa sig sigraðan og hvatti stuðningsmenn sína til að fara að þinghúsinu og mótmæla niðurstöðunum.

Þingmenn voru við það að ræða niðurstöðurnar í Arizona þegar stuðningsmenn Trumps brutust inn í þinghúsið og koma þurfti öllum þingmönnum í öruggt skjól. Enn er nokkur fjöldi fólks inni í þinghúsinu en verið er að vinna í því að koma þeim úr byggingunni þar sem útgöngubann tekur gildi klukkan 23 að íslenskum tíma.

Hægt er að fylgjast nánar með stöðu mála í beinni hér fyrir neðan.