Þrátt fyrir allt fjaðrafokið í kringum kynlífssamband klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels og Donalds Trump fyrr á þessu ári er ljóst að hún hefur látið ýmislegt ósagt. Nú hangir hins vegar allsherjar afhjúpun hennar yfir forsetanum þar sem hún lætur allt flakka í bókinni Full Disclosure sem kemur út 2. október.

The Guardian hefur komist yfir eintak af bókinni og upplýsir í dag að í henni bjóði Stormy upp á heldur blautlegar lýsingar á kynlífsfundi þeirra Trumps á golfvelli 2006.

Stormy greinir einnig frá því að Trump hafi í raun aldrei haft áhuga á forsetaembættinu og veltir fyrir sér hvort hann sé yfirleitt hæfur til þess að gegna því. Þá greinir hún frá því að hann hafi boðist til þess að tryggja henni þokkalegt langlífi í raunveruleikasjónvarpsþætti sínum The Apprentice með svindli.

Samkvæmt The Guardian dregur Stormy upp mynd af trúðslegum og óöruggum manni í lýsingum sínum á Trump meðal annars með afar greinargóðum og háðskum lýsingum á karlmennsku forsetans þegar hún segir stærðina á getnaðarlim hans undir meðallagi en hann sé þó ekki „fáránlega lítill.“

Óspennandi kynlíf með loðnum snjómanni

„Hann veit að hann er með óvenjulegt typpi,“ skrifar Daniels og bætir við að limurinn minni helst á stóran svepp. „Ég lá þarna og lét fara í taugarnar á mér að ég væri að fara að hafa mök við mann með skapahár eins og snjómaðurinn ógurlegi og typpi eins og sveppapersóna úr Mario Kart…“

Daniels lætur ekki þar við sitja og segir að líklega hafi hún aldrei notið jafn tilkomulítils kynlífs „þótt hann hafi greinilega ekki deilt þeirri skoðun.“ Þá segir hún að í hvert skipti sem hún hafi séð Trump í sjónvarpinu árin á eftir hafi hún hugsað með sjálfri sér: „Ég svaf hjá þessu. Oj.“

Stormy, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford, rekur einnig ævisögu sína og segir lífið ætíð hafa mátt þola mótlæti. Hún ólst upp í fátækt í Baton Rouge í Louisiana og mátti í æsku þola vanrækslu og kynferðislega misnotkun. „Mér hafa aldrei verið gefin góð spil en ég stend við sögu mína og þær ákvarðanir sem ég hef tekið.“