Hita­beltis­stormurinn Hum­ber­to breytti um leið í dag og mun að öllum líkindum ekki fara yfir Bahama­eyjar eins og áður hafði verið spáð, en í­búar þar eru enn að jafna sig eftir að felli­bylurinn Dorian reið yfir eyjarnar fyrir minna en tveimur vikum. Enn er 1.300 manns leitað á eyjunum. Alls hafa 50 verið stað­fest látin og er fast­lega talið að tala látinna muni hækka.

Hum­ber­to hefði aldrei orðið eins sterkur og Dorian en hefði hann farið yfir hefði hann gert líf íbúa tals­vert erfiðara, auk þess sem leit hefði verið ill­mögu­leg. Veður­stofan greindi frá því í dag að Hum­ber­to myndi lík­lega verð stærri og vera orðinn felli­bylur á morgun, sunnu­dag, en að hann myndi ekki fara yfir eyjarnar fyrir þann tíma. Búist er þó við tals­verðri rigningu á hluta eyjanna.

„Það er blessun fyrir okkur að hann haldi sig frá At­lants­hafinu,“ sagði Tre­vor M. Bas­den, yfir­maður Veður­stofunnar á Bahamaeyjum og bætti við að þau myndu lík­lega af­lýsa storm­við­vörun sinni seinna í kvöld.

Með­limur þingsins á Bahama­eyjum, Michael Pintard, greindi frá því að björgunar­að­gerðir vegna Dorian væru að fullu komnar í gang aftur, en það þurfti að gera hlé á þeim vegna storm­við­vörunarinnar.

Aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, António Guter­res, sagði á blaða­manna­fundi í gær með for­sætis­ráð­herra Bahama­eyja að ekki væri hægt að búast við því að svo lítil land gæti tekist á við skuld­bindingar sem fylgja slíkri eyði­leggingu eitt. Hann sagði að al­þjóða­sam­fé­lagið yrði að stíga inn.

„Á nýju tíma­bili lofts­lags­vár hafa felli­byljir og stormar marg­falt aukið við sig. Þeir eru á­kafari og tíðari, sem er bein af­leiðing hlýrri hafa,“ sagði Guter­res.

Greint er frá á NY Times.