Stormurinn hefur nú þegar skollið á í Vík í Mýrdal, enda syðsti þéttbýlisstaður á Íslandi. Fjöldi ferðamanna, sem ætluðu áfram austur á Kirkjubæjarklaustur, þurfta að stoppa í Vík. Mikil bílateppa myndaðist og festu nokkrir bíla sína í snjónum.

„Stormurinn skall á aðeins fyrr, en við vissum svo sem að það myndi byrja fyrr að snjóa,“ segir Anna Huld Óskarsdóttir, hótelstjóri á Hótel Kötlu á Höfðabrekku, austan Víkur. Þjóðveginum var lokað milli Víkur í Mýrdal og Markarfljóts um áttaleytið í kvöld.

„Það myndaðist ástand fyrr í kvöld. Björgunarsveitin er búin að vera á fullu að aðstoða fólk,“ segir Anna Huld. Öll herbergin á Hótel Kötlu fylltust og er búið að bóka öll gistiheimili í bænum fyrir ferðamennina. Í kjölfarið var opnuð fjöldahjálparstöð í Leikskálum.

Notalegt að horfa á óveðrið úti

Fátt er svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott. Nokkrir íbúar njóta þess að fylgjast með óveðrinu út um gluggann og hafa engar áhyggjur svo fremi sem rafmagnið og heita vatnið sé enn á.

„Það er notaleg staða að geta verið inni í hlýju og horft á veðrið úti og notið þess að hafa Valentínusardag fram undan í rúminu,“ segir Reynir Ragnarsson, fyrrverandi lögreglumaður í Vík. Hann segir að allir íbúar séu innandyra.

„Það er rólegt í bænum og notalegt að horfa á óveðrið úti. Það er bæði rok og snjókoma. Maður sér ekki neitt, nema rétt út í ljósastaurana fyrir utan.“

Rauðar við­varanir taka gildi á Höfuð­borgar­svæðinu, Suður­landi, Faxa­flóa og Suð­austur­landi milli klukkan fimm og sjö undir morgun. Appelsínugular viðvaranir verða í gildi alls staðar annars staðar.

Vegir verða víða lokaðir fram eftir há­degi á morgun og ekki er hægt að segja til um hve­nær ein­hverjar leiðir koma til með að opna á ný.