„Það er bylur að ganga yfir höfuðborgarsvæðið núna, en það fer að draga úr honum um sex leytið, þannig þetta ætti að vara í um klukkustund eða einn og hálfan tíma. Svo kemur líklegast annar bylur seinna í kvöld og þá meira í formi rigningar,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, aðspurður út í skyndilegan snjóbyl sem gengur yfir höfuðborgarsvæðið þessa stundina.

Hann segir að það verði heldur hvassara í kvöld, bæði í Faxaflóa og í Breiðafirði upp að Vestfjörðunum.

„Ég á ekki von á því að bylur kvöldsins verði eins og þessi. Það gæti farið upp í 28 metra á sekúndu. Þessi bylur endist aðeins lengur á Suðurlandinu áður en hann færir sig Vestar þegar líða tekur á kvöldið.“

Veðurstofan er í nánu samstarfi við Vegagerðina og fylgjast með stöðu mála enda er einnig bylur að ganga yfir Suðurlandið.

„Þetta er víða. Það er búið að vera mjög hvasst víða á Suðurlandi og snjókoma. Vegagerðin ákvað að loka Eyjafjöllunum, Mýrdalnum, og öllum Mýrdalssandinum. Svo er búið að loka Mosfellsheiðinni og við erum í viðbragðsstöðu,“ segir Eiríkur.