Í dag spáir Veðurstofan suðaustan hvassviðri eða stormi sunnan- og vestantil, 15-23 m/s, með talsverðri rigningu eða slyddu. Vindur verður mun hægari og lengst af verður léttskýjað norðaustanlands. Eftir hádegi snýst í suðvestan 5-10 m/s með stöku éljum um landið vestanvert, en það gengur í sunnan 8-15 m/s með slyddu eða rigningu fyrir austan og úrkoma minnkar norðaustantil.

Veður fer hlýnandi, hiti verður 0 til 6 stig síðdegis.

Á morgun verða suðvestan 5-13 m/s og dálítil él, en það léttir til um landið austanvert og kólnar í veðri.

Gul viðvörun á Breiðafirði

Gul viðvörun er í gildi til 11:30 í dag á Breiðafirði vegna stormsins. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll og því verður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni.

Fínt veður um helgina

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það sé útlit fyrir fínasta veður um helgina. Loftið verður óstöðugt á morgun, með suðvestanátt og dálitlum éljum og það kólnar smám saman, en léttir til um landið austanvert. Á sunnudag liggur hæðarhryggur yfir landinu með froststillum og sólríku veðri um mest allt land og þá má búast við talsverðu frosti inn til landsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Suðvestan 8-13 m/s og él, en hægari og léttskýjað um landið A-vert. Frost 0 til 7 stig, en yfirleitt frostlaust við suður- og vesturströndina.

Á sunnudag:

Fremur hæg breytileg átt og léttskýjað, en snýst í vaxandi suðaustanátt og þykknar upp suðvestantil um kvöldið. Frost 0 til 10 stig, í innsveitum norðaustanlands.

Á mánudag og þriðjudag:

Suðaustan 10-18 og úrkomulítið um landið suðvestanvert, hvassast við suðvesturströndina og hiti 0 til 6 stig. Mun hægari og yfirleitt bjart norðan- og austanlands og vægt frost.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Austlæg átt og stöku él, en þurrt og bjart suðvestan- og vestanlands. Heldur kólnandi.