Veðurstofan spáir norðaustlægri átt í dag, 5-15 m/s, hvassast suðaustantil. Það á að vera minnkandi éljagangur í dag en bjart með köflum suðvestan- og vestanlands.

Hiti verður á bilinu 0 til 4 stig syðst að deginum, en annars frost, 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins. Það verður kaldara yfir nóttina, einkum í innsveitum norðaustantil.

Í nótt og á morgun verður vaxandi austlæg átt, víða 8-15 m/s síðdegis, en stormur, 18-25 m/s og mun hvassara í hviðum, syðst. Annars staðar hvessir einnig, en þar verða austan 10-18 m/s.

Slydda eða snjókoma verður á köflum sunnan- og suðaustanlands, einkum frá Markarfljóti austur fyrir Vík í Mýrdal, en yfirleitt verður þurrt annars staðar. Ekki er hægt að útiloka að minniháttar úrkoma nái á höfuðborgarsvæðið, en ætti engu að síður að vera lítil. Ferðalangar eru hvattir til að sýna aðgát því færð getur spillst.

Færð á þjóðvegum

Hringvegurinn er að mestu greiðfær, en það er nokkuð um hálku og snjóþekju á þjóðvegum landsins.

Suðvesturland: Víðast hvar greiðfært en hálkublettir á Krýsuvíkurvegi.

Vesturland: Það er að mestu greiðfært í Borgarfirðinum, vestur Mýrar og á sunnanverðu Snæfellsnesi en hálka, hálkublettir eða snjóþekja annarsstaðar.

Vestfirðir: Víðast hvar hálka, hálkublettir eða snjóþekja og skafrenningur á nokkrum fjallvegum.

Norðurland: Víða hálka, hálkublettir eða snjóþekja en að mestu greiðfært í Skagafirði. Þungfært milli Ketiláss og Siglufjarðar en unnið að hreinsun.

Norðausturland: Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum en þæfingsfærð á Hófaskarði og Sandvíkurheiði. Éljagangur nokkuð víða og sumsstaðar skafrenningur.

Austurland: Snjóþekja eða hálka á flestum leiðum og sumsstaðar éljagangur. Ófært er sem stendur yfir Vatnsskarð eystra.

Suðausturland: Snjóþekja eða hálka er frá Höfn og að Lómagnúp, þungfært í Eldhrauni og þæfingsfærð á Mýrdalssandi en unnið að hreinsun.

Suðurland: Hálka er á Reynisfjalli og undir Eyjafjöllum en annars er Hringvegurinn að mestu greiðfær. Hálka eða hálkublettir eru á útvegum.