Í dag gengur í austan 15-23 m/s og búast má við austan stormi syðst á landinu seinnipartinn með rigningu, slyddu eða snjókomu, einkum frá Markarfljóti austur fyrir Vík í Mýrdal. Ferðalangar eru hvattir til að sýna aðgát því syðst á landinu verður hríðaveður með skafrenningi fyrir hádegi.  Skyggni verður lítið yfir miðjan daginn og til kvölds og aðstæðar hinar erfiðustu. Undir  Eyjafjöllum verða hviður allt að 35 m/s og þar er krapi og hált.

Fyrir norðan verður  mun hægari vindur og bjart.

Samkvæmt Veðurstofu gefa spár til kynna að þessi sami bakki geti síðan komið lengra inn á landið suðvestanvert seint í kvöld og nótt með snjókomu og að þá gæti snjóað allhressilega þar. Á þetta einkum við suðurströndina og megnið af Reykjanesinu. Líklega sleppur höfuðborgin ekki, eftir þurra og bjarta daga að undanförnu.

Hiti verður á bilinu 0 til 4 stig sunnan- og suðvestanlands síðdegis, en annars 2 til 10 stiga frost, kaldast inn til landsins norðantil.

Á morgun verður mun hægari suðaustlæg átt, víða 5-13 m/s. Það verður snjókoma eða él í flestum landshlutum, síst norðvestantil. Það verður víða frostlaust við ströndina en annars frost, kaldast inn til landsins norðanlands, þar sem frost gæti farið niður í 10 stig að næturlagi.

Færð á þjóðvegum

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er víða hálka á þjóðvegum landsins og snjóþekja fyrir austan og norðaustan, en almennt frekar greiðfært.

Vesturland: Það er að mestu greiðfært í Borgarfirðinum, vestur Mýrar og á sunnanverðu Snæfellsnesi en hálkublettir annarsstaðar.

Vestfirðir: Víðast hvar hálka eða hálkublettir. Þæfingsfærð er á Bjarnarfjarðarháls og Drangnesvegi.

Norðurland: Greiðfært á nokkrum leiðum í nágrenni Blönduóss og í Skagafirði en annars hálka eða hálkublettir á vegum.

Norðausturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á flestum leiðum og éljagangur við ströndina. Varað er við hóp af hreindýrum nærri veg á Vopnafjarðarheiði.

Austurland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum.

Suðausturland: Hálka er á Þjóðvegi 1 en þæfingsfærð á útvegum. Skafrenningur er á Mýrdalssandi og í Öræfum.

Suðurland: Flestar leiðir eru greiðfærar en hálka eða hálkublettir eru nokkrum leiðum. Hálka og skafrenningur er á Reynisfjalli.