Félagið sem rekur íslensku stórmoskuna í Skógarhlíð lánaði íslömskum einkaskóla í Örebro í Svíþjóð meira en 110 milljónir króna. Þetta kemur fram í sænska ríkisútvarpinu í dag og á vef Stundarinnar.

Alsalamskólinn í Örebro fær um 700 milljónir íslenskra króna frá sveitarfélaginu.

Hafi vantað fjármagn

Karim Azkari, framkvæmdastjóri íslensku stórmoskunnar, segir í samtali við Stundina að Alsalamskólinn hafi verið að stækka og vantað fjármagn. Íslenska moskan hafi séð þeim fyrir fjármagni til fimm ára, höfuðstólinn eigi að greiða á næsta ári. Tengingin sé að einn af stjórnarmönnum íslensku moskunnar hafi einnig verið í stjórn sænska skólans.

„Þetta eru okkar peningar; peningar sem við notum til að fjármagna rekstur moskunnar,“ sagði Karim við Stundina þegar hann var spurður út í uppruna peninganna. „Í upphafi þá fengum við peninga frá ýmsum löndum af því múslimasamfélagið á Íslandi er ekki ríkt. Eitt af þessum löndum var Sádi-Arabíu. Við höfum líka fengið peninga frá íslenska ríkinu.“

Lánið til að flytja fé til Íslands

Magnus Normark, greinandi hjá sænsku varnarmálastofnuninni, sagði við sænska ríkisútvarpið að þörf hafi verið fyrir peninga í samtökunum í bæði Íslandi og í Noregi sem fjárfestar frá Sádi-Arabíu hafi að hluta til komið til móts við. Skólinn í Örebro sé mjög fjársterkur. Lánið frá Íslandi hafi í raun verið til að flytja fjármagn til Íslands frá Svíþjóð.