Áætlað er að um 500 til 600 bandarískir og kanadískir hermenn verði staddir hér á landinu næstu vikurnar.

Um er að ræða þrjá hópa, annars vegar 265 manna hóp bandaríska flughersins sem kom til landsins í byrjun október vegna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins og hins vegar 60 manna hóp kanadíska flughersins og 168 manna hóp bandaríska sjóhersins sem eru hér á landi vegna kafabátaeftirlits. Þá hefur danski flugherinn einnig dvalið síðastliðnar vikur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli vegna reglubundinnar skoðunar á þyrlu flughersins sem staðsett er um borð í herskipum danska sjóhersins við Grænlandsstrendur.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir að þessi mikli fjöldi hermannanna á landinu stafi meðal annars að því að sóttvarnarreglur eru strangari en almennt sé í gildi. Auk landamæraskimana fari allir í tveggja vikna vinnusóttkví.

„Þeir fara einnig í fjórtán daga sóttkví í sínu heimalandi áður en þeir koma til landsins. Nú standa yfir áhafnaskipti. Af þeim sökum eru tvöfaldar áhafnir á staðnum tímabundið en skiptin taka þrjár til fjórar vikur vegna farsóttarinnar og krafna um sóttkví liðsmanna,“ segir Ásgeir.

Engin tengsl eru á milli þessara tveggja verkefna og segir Ásgeir að það sé tilviljun að þau hafi komið til framkvæmdar á sama tíma. „Áhafnaskiptin taka óvenjulangan tíma að þessu sinni vegna kórónuveirufaraldursins en venjulega taka þau nokkra daga.“

Strangari ráðstafanir hafa verið gerðar vegna komu erlends liðsafla en almennt hefur gilt um ferðamenn sem koma til landsins. Þeir liðsmenn sem lokið hafa sóttkví, skimunum og uppfyllt reglur viðkomandi ríkja hafa heimild til að ferðast utan öryggissvæðis.

Í upphaflegu fréttinni kom fram að 300 manna hópur kanadíska flughersins væri staddur hér á landi. Sá hópur telur hins vegar um 60, en 168 manna hópur bandaríska sjóhersins er einnig á landinu.