Búist er við því að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna muni strika út stóra hluta úr eiðsvarinni yfirlýsingu sem var grundvöllurinn að leitarheimild fyrir húsleit bandarísku alríkislögreglunnar FBI á heimili Donalds Trump fyrrum Bandaríkjaforseta á Mar-a-Lago-óðalinu fyrr í mánuðinum.

Leitarheimildin sjálf hefur þegar verið gerð opinber og í henni kom fram að húsleitin hefði verið gerð til að afla sönnunargagna um möguleg brot Donalds Trump á alríkislögum í tengslum við meðferð trúnaðarskjala um varnarmál og önnur opinber gögn. Wall Street Journal greindi upphaflega frá því að lögreglan hefði fengið ábendingu um að Trump væri að geyma opinber trúnaðarskjöl á óðalinu og að þess vegna hefði verið sótt um heimild til leitar þar.

Dómarinn Bruce Reinhart gaf ráðuneytinu frest fram til dagsins í dag til að strika út hluta úr yfirlýsingunni áður en hann gerir aðra hluta hennar opinbera. Eftir að hann hefur tekið við yfirlýsingunni með útstrikunum ráðuneytisins leggur Reinhart mat á hvort hann samþykki þær eða geri eigin útstrikanir í staðinn. Reinhart hefur gefið út að hann sé ekki hlynntur því að halda öllu efni yfirlýsingarinnar leyndu.

Húsleit FBI á heimili Trumps hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum, enda er þetta í fyrsta sinn sem slík leit er gerð heima hjá fyrrum Bandaríkjaforseta. Trump og stuðningsmenn hans hafa hneykslast á húsleitinni og segja hana pólitíska aðför dómsmálaráðuneytisins gegn andstæðingum sitjandi ríkisstjórnar Joe Biden forseta.

Fjölmiðlar hafa kallað eftir því að yfirlýsingin verði birt vegna sögulegs mikilvægis og mikils almenningsáhuga á húsleitinni. Dómsmálaráðuneytið hefur hins vegar gefið út að til þess að vernda vitni í málinu yrði að strika svo stóra hluta yfirlýsingarinnar út að hún kæmi til með að vera svo til merkingarlaus.