Stór jarðskjálfti, 5,6 stig með upptök sex kílómetrum vestan við Kleifarvatn, reið yfir suðvesturhorn landsins klukkan 13.43 í gærdag. Hríðskalf allt á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi og þá fannst skjálftinn vel á Vesturlandi, Vestfjörðum, alla leið norður á Akureyri og suður í Vestmannaeyjar og austur á Hellu.

Hundruð eftirskjálfta fylgdu næstu klukkutímana, þar af að minnsta kosti tveir yfir 4 stig, en með upptök vestar á Reykjanesinu. Álagið var slíkt á Veðurstofunni að vefþjónarnir höfðu ekki undan og almannavarnir voru í viðbragðsstöðu.

Engar fregnir bárust af slysum eða stórkostlegu tjóni. Víða duttu blómavasar úr gluggakistum og myndir af veggjum. Vörur hrundu úr hillum verslana og sums staðar loftaplötur í skrifstofurýmum, meðal annars við skrifstofu Bjarna Benediktssonar í fjármálaráðuneytinu.

„Við getum alveg reiknað með hrinum næsta árið,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um þá spennulosun sem er að eiga sér stað á Reykjanesi. „Þetta byrjaði í Þorbirni og er nú að færast nær borginni. Miðað við kortlagningu á sniðgengissprungum, sem valda stóru skjálftunum, virðist þetta vera að færast í átt að Bláfjöllum og Hengli. Þar lýkur þessu því þá er það komið í tenginguna við Suðurlandsskjálftabeltið.“

Mikil spennulosun hefur verið á Reykjaneshryggnum síðan í janúar. Hægt verður að sjá hversu mikil spenna hefur losnað þegar hrinan gengur yfir. Á sama tíma er hrina í Kolbeinseyjarhryggnum. „Ég hef meiri áhyggjur af hryggnum fyrir norðan því þar hefur spennan byggst upp mjög lengi. Sú hrina sem byrjaði þar í sumar er nú að færa sig sífellt nær Húsavík. Þar eru sprungur sem hafa ekki hreyft sig í hundrað ár,“ segir Ármann.

Má því búast við stærri skjálftum þar en á Reykjanesi.Segir hann hrinuna núna á Reykjanesi í raun gullið tækifæri fyrir jarðvísindamenn til þess að rannsaka hvaða áhrif spennulosunin hafi. Þrátt fyrir að upplýsingaöflun sé langtum meiri nú en áður hafi mælingar aðeins verið til í stuttan tíma og samanburðurinn við fyrri tíð því ekki til staðar. Nú verði fylgst með því hvort Reykjanesið „slaki á“ eða gliðnun hefjist í kjölfarið. En um leið og það gerist kemur kvikan upp.

„Þrátt fyrir að spennulosun hafi verið mikil alveg frá því í janúar virðist ekki vera mikil kvika á hreyfingu. Þetta er hins vegar allt liður í því að opna skorpuna til að kvikan komist upp á yfirborðið. Það er hins vegar ómögulegt að segja til um hvort að það gjósi á morgun eða eftir hundrað ár,“ segir Ármann.