Í­búar í Lake Jack­son, tæp­lega 30 þúsund íbúa bæ í Texas í Banda­ríkjunum, hafa verið varaðir við því að nota krana­vatnið eftir að lífs­hættu­leg amaba, Naegleria fowleri, fannst í vatns­bóli bæjarins. ABC greinir frá þessu.

Ama­ban, sem stundum hefur verið kölluð heilaétandi amaba, getur valdið lífs­hættu­legri sýkingu í heila. Í­búar annarra bæja í ná­grenni Hou­ston í Texas voru einnig varaðir við því að nota krana­vatnið meðan rann­sókn á vatninu fór fram, en þær við­varanir voru felldar úr gildi í gær. Á þetta því að­eins við um Lake Jack­son.

Ama­ban getur sem fyrr segir valdið al­var­legri sýkingu í heila en það gerist einkum ef hún kemst inn í líkamann í gegnum nefið. Hún borar sig í gegnum þunna húðina í nefinu og fer upp í heila þar sem hún nærist á tauga­frumum heilans. Af þessum sökum hafa í­búar verið hvattir til að fara ekki í sturtu eða bað að svo stöddu.

CDC í Banda­ríkjunum, Mið­stöð sjúk­dóma­varna og for­varna, telur þó að ó­hætt sé að drekka vatnið.

Í um­fjöllun á Vísinda­vefnum kemur fram að greining á sjúk­dómnum komi oft ekki fram fyrr en við krufningu.