CNN greindi frá því í gær að þýski fjármálarisinn Deutsche Bank hefði ákveðið að slíta öllu samstarfi við Donald Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, í ljósi aðgerða stuðningsmanna Trumps í óeirðunum við fulltrúaþingdeild Bandaríkjanna á dögunum. Samkvæmt sömu heimildum er bankinn, sem er einn af þeim stærstu í heiminum, einn af helstu lánveitendum Trumps.

Sífellt fleiri fyrirtæki eru að endurskoða samskipti sín við forseta Bandaríkjanna eftir að fimm létust í skipulögðum mótmælum stuðningsmanna Trumps í síðustu viku. PGA mótaröðin í golfi, sterkasta atvinnumannamótaröð heims, svipti golfvöll Trumps einu af risamótunum fjórum sem átti að fara fram á næsta ári og er talið að vellirnir sautján sem eru í eigu Trumps komi ekki lengur til greina við skipulagningu móta.

Í heildina hefur Deutsche Bank lánað Trump og fyrirtækjum hans 2,5 milljarða Bandaríkjadala og stendur skuldin nálægt 340 milljónum, en lánin voru meðal annars notuð til að fjármagna enduruppbyggingu á golfvöllum og hótelum í eigu Trump-fjölskyldunnar.