Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Sunnudagur 5. mars 2023
09.00 GMT

Leikhúsin er einn geirinn sem samkomutakmarkanir bitnuðu illa á en eru nú sannarlega í miklum blóma. En eru leikhúsgestir að fá sér of mikið? Við heyrðum í leikhússtjórum og spurðum þá hvort áfengisneysla leikhúsgesta væri truflandi.

Meira á söngleikjum og försum

Björk Jakobsdóttir, leikkona og leikhússtjóri Gaflaraleikhússins, segist verða meira vör við að vín bæði sjáist og heyrist á leikhúsgestum.

„Já, því miður finnst mér það. Bæði hef ég orðið vör við það sem leikkona á sviði og sem áhorfandi í leikhúsinu,“ segir hún en Björk er hluti þríeykisins á bak við verkið, Bíddu bara, sem hefur slegið í gegn í vetur. „Þetta á ekki bara við um leikhúsin heldur alla viðburði og ég held að fleiri skemmtikraftar taki undir það.“

Sara Martí Guðmundsdóttir, leikhússtjóri Tjarnarbíós segir vandann ekki endilega hafa aukist, heldur hafa verið viðloðandi í langan tíma.

„Í flestum tilfellum er þetta ekki vandamál en það kemur fyrir á sýningum þar sem er smá stuð að fólk er orðið ölvað þegar það er að mæta í leikhúsið og heldur svo áfram að dæla í sig,“ segir Sara.

Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, er ekki frá því að eitthvað hafi breyst eftir Covid.

„Án þess að hafa gert vísindalega rannsókn á þessu, þá finnst okkur eins og áfengisneysla hafi aðeins aukist eftir Covid á sumum sýningum,“ segir hún.


„Án þess að hafa gert vísindalega rannsókn á þessu, þá finnst okkur eins og áfengisneysla hafi aðeins aukist eftir Covid á sumum sýningum."

Marta Nordal


Björk Jakobsdóttir leikhússtjóri Gaflaraleikhússins, Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri, Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri, Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og Sara Martí Guðmundsdóttir leikhússtjóri Tjarnarbíós.

„Kannski er þetta uppsöfnuð spenna í landanum eftir inniveruna. En þetta er auðvitað mjög háð tegund sýninga. Söngleikir og til dæmis farsar sem hafa mikið skemmtanagildi og njóta almennrar lýðhylli draga frekar að sér djammstemninguna.

Þar eru hópar að gera sér dagamun, stundum vinnustaðatengt, fara gjarnan út að borða á undan og svo að djamma á eftir. En á langflestum öðrum leiksýningum er þetta nákvæmlega ekkert vandamál. Þetta er líka mismunandi eftir sýningarkvöldum, laugardagskvöldin eru hressust í þessu en á virkum kvöldum svo sem fimmtudögum er sáralítið drukkið og flestir bara í sódavatninu,” segir Marta.

Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri segist ekki hafa orðið var við aukna drykkju í sínu leikhúsi.

„Þetta hefur ekki verið vandamál enda höfum við ekki hvatt til þess að farið sé með drykki inn í salina heldur höfum við hvatt gesti okkar til að panta drykki fyrir sýningu sem bíða þeirra tilbúnir á fráteknu borði í hléi. Þessi þjónusta er mjög vinsæl og gestir eru þakklátir fyrir þetta fyrirkomulag. Annað fyrirkomulag er svo í Þjóðleikhúskjallaranum en þar er beinlínis gert ráð fyrir að fólk njóti veitinga við borð meðan á sýningu stendur og þar virkar það mjög vel, bæði á kvöldsýningum og í Hádegisleikhúsinu okkar,“ segir hann.

Brynhildur Guðjónsdóttir, Borgarleikhússtjóri, segist hafa orðið vör við breytta hegðun, meira hömluleysi.

„Hvort það stafar af víndrykkju eða ekki er ómögulegt að segja til um. Það verður að ítreka að 99,9 prósent gesta Borgarleikhússins eru til stakrar fyrirmyndar og komnir til að skemmta sér.“


„Þetta hefur ekki verið vandamál enda höfum við ekki hvatt til þess að farið sé með drykki inn í salina heldur höfum við hvatt gesti okkar til að panta drykki fyrir sýningu sem bíða þeirra tilbúnir á fráteknu borði í hléi."

Magnús Geir


Drukkið fólk missir skynbragð

Aðspurð hvort áfengisneysla hafi orðið til vandræða á leiksýningum segist Sara Martí það hafa komið fyrir.

„Það kemur fyrir að fólk er það ölvað að það er að tala upphátt á miðjum sýningum sem er truflandi fyrir aðra leikhúsgesti og þá sem eru að koma fram. Þeir gestir sem eru að fá sér á meðan á sýningu stendur, þurfa líka iðulega að fara oftar á klósett en aðrir, sem er truflandi, sér í lagi þegar fólk á erfitt með að gera það hljóðlega, sem það gerir alls ekki þegar það er ölvað,“ segir hún.


„Það kemur fyrir að fólk er það ölvað að það er að tala upphátt á miðjum sýningum sem er truflandi fyrir aðra leikhúsgesti og þá sem eru að koma fram."

Sara Martí


Það er gott að geta fengið sér vínglas á leiksýningu en verra að mæta beint úr fyrirpartýi. Fréttablaðið/Getty

Björk Jakobsdóttir segir það geta reynst erfitt að tækla þetta því að sjálfsögðu eigi allir skilið að skemmta sér og viðbrögð séu misjöfn.

„En þegar viðbrögð eru orðin algerlega hlustunarlaust ölvunarástand með stanslausum frammíköllum og háværum samræðum, þá verður það alveg óþolandi fyrir þá sem eru að horfa og mjög erfitt fyrir leikara á sviði,“ segir hún og bætir við: „Það er líka mjög erfitt að þurfa að stöðva sýningu til að vísa fólki út.“

Marta Nordal bendir á að drukkið fólk eigi það til að missa skynbragð á umhverfi sitt.

„Aðallega getur mikil áfengisneysla verið truflun við aðra gesti. Þeir sem eru drukknir missa svolítið skynbragð á umhverfi sitt, tala hátt og jafnvel mikið á meðan á sýningum stendur. Eru kannski ráfandi úr salnum og lengi að koma sér inn og svo framvegis,” segir hún.

„Þetta veldur auðvitað miklum pirringi hjá öðrum gestum sem eru notabene búnir að borga fullt af peningum fyrir miðana sína og komnir til að njóta sýningarinnar og eiga rétt á því. Svo truflar þetta auðvitað líka leikarana á sviðinu. En við höfum sem betur fer ekki lent í miklum vandræðum með þetta á síðustu árum, allt verið frekar sakleysislegar uppákomur sem auðvelt hefur verið að díla við.”

Magnús Geir upplifir vandræðin ekki meiri en áður og segir slíkt í raun undantekningartilvik.

„Í gegnum tíðina hafa eflaust verið einstaka tilvik þar sem einhver hefur verið til vandræða en slíkt hefur sem betur fer verið ákaflega sjaldgæft og í raun alger undantekningartilvik.“

Björk segir vandann ekki alveg nýjan af nálinni en þó hafa aukist.

„Ég man eftir að hafa upplifað einstaka ölvaða einstaklinga í hópi áhorfenda í gegnum tíðina, þeir eru þó teljandi á fingrum annarrar handar. Mér finnst þetta hafa færst aðeins í aukana.“

Brynhildur segir hömluleysið sem þau hafi orðið vör við í Borgarleikhúsinu lýsa sér meðal annars í ákveðnu skeytingarleysi í garð annarra, gesta sem og starfsfólks leikhússins.

„Því miður hefur það komið fyrir að gestir á ákveðnum sýningum hafa haft í frammi truflandi hegðun. Verið með frammíköll og óþarfa ráp.“

Fólk að mæta drukkið

Í Gaflaraleikhúsinu er gestum leyft að taka með sér drykk inn í salinn.

„Ég held að vandinn sé ekki að það sé selt vín í hléi heldur er fólk að mæta of drukkið í leikhúsið,“ segir Björk sem vill þó ekki ganga svo langt að banna áfengisneyslu í leikhúsinu.

„Það væri leiðinleg forræðishyggja að banna öllum leikhúsgestum, sem langflestir eru til fyrirmyndar, að fá sér vínglas. Það má kannski bara minna áhorfendur á samræður og hávær frammíköll geta truflað aðra leikhúsgesti sem og leikara á sviði. Eins vil ég biðja áhorfendur að taka starfsfólki í framhúsi vel ef það biður gesti að stilla sig aðeins. Það er ekki án ástæðu.“


„Það væri leiðinleg forræðishyggja að banna öllum leikhúsgestum, sem langflestir eru til fyrirmyndar, að fá sér vínglas."

Björk Jakobs.


Hjá Leikfélagi Akureyrar er gestum ekki leyft að taka drykki með sér inn í sal.

„Mér finnst persónulega ekki skemmtilegt að fólk sé að druslast með vínglös og bjór inni í sal. Það er ekki gert ráð fyrir glösum og flöskum hjá sætunum, lítið pláss og því hvergi hægt að leggja þetta frá sér nema á gólfið sem gerir þetta soldið sjoppulegt allt saman,“ segir Marta.

„Við erum með hlé á flestum sýningum og fólk getur vökvað sig þá. Mér finnst vera hálfgerður ósiður að leyfa vín og bjór inni í sölunum og ekki fara saman við leiksýningar. Þetta kemur bara niður á hlustun áhorfenda enda njóta fáir leiksýninga rallhálfir,“ segir Marta og heldur áfram:

„Það að leyfa áfengisneyslu inni í sal er frekar nýleg breyting og ég veit satt að segja ekki af hverju hún kom til. Kannski hreinlega til að selja meira á barnum og auka tekjur leikhússins af kvöldinu. Og einhverjum finnst líklega einhver stemmning í þessu og frelsi. En þegar heildarmyndin og hagsmunir allra eru skoðaðir þá held ég að það sé farsælast að banna áfengisneyslu inni í áhorfendasal.“


„Það að leyfa áfengisneyslu inni í sal er frekar nýleg breyting og ég veit satt að segja ekki af hverju hún kom til."

Marta Nordal


Settu þak á magnið

Í Tjarnarbíó má taka drykk með sér inn í sal. „Eftir að starfsfólk hafði orð á því í byrjun leikárs að áhorfendur væru sumir hverjir að kaupa sex bjóra og setja þá undir stólana sína, þá ákváðum við að setja þak á magnið sem mátti kaupa í einu,“ segir Sara Martí.

Í Þjóðleikhúsinu er ekki hvatt til þess að gestir taki drykki með sér inn í sal að sögn Magnúsar Geirs. „Við höfum ekki í hyggju að breyta þessu fyrirkomulagi enda hefur það reynst vel. Við viljum að leikhúsgestir fái fullkomið næði til að njóta þeirra sýninga sem boðið er upp á og því hvetjum við frekar til þess að gestir njóti fjölbreyttra veitinga fyrir sýningu, í hléi og eftir sýningu en að þeir séu að klyfja sig og fara með drykki inn í salina.“

Í Borgarleikhúsinu hefur verið leyft að taka drykki með sér inn í stóra sal í meira en áratug.

„Ef fólk er ekki búið að klára drykkinn sinn þegar sýning hefst þá hefur verið leyfilegt að taka hann inn. Fæstir gera það. Tekið skal fram að barinn er ekki opinn meðan á sýningu stendur. Við treystum gestum okkar og munum gera það áfram,“ segir Brynhildur


„Við treystum gestum okkar og munum gera það áfram."

Brynhildur Guðjónsdóttir


Sara Martí segist ekki sjá neitt að því að fólk fái sér drykk þegar það fer á leiksýningu.

„En að vera drukkið á leiksýningu finnst mér bara stórfurðulegt val,“ segir hún og bætir við:

„Ég myndi helst vilja að ölvun ógildi miðann. En það er líka erfitt að biðja starfsfólk mitt að þurfa að vega og meta svoleiðis aðstæður og fara í hlutverk dyravarða, sem það er ekki, enda er Tjarnarbíó ekki skemmtistaður, heldur leikhús.“

Athugasemdir