Vestfirðingar hafa miklar væntingar um að pallur í 700 metra hæð hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustu. Landhelgisgæslan og sveitarfélagið eiga þó eftir að semja um vegamál að pallinum.

„Það hreinlega rignir yfir okkur fyrirspurnum um hvenær við opnum pallinn. Það er mikil pressa en við höfum þurft að taka erfiðar ákvarðanir til að tryggja öryggi,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.

Pallurinn er að mestu tilbúinn en enn á eftir að hnýta lausa enda er varða aðgengi og kostnað tengdan því í framtíðinni.

Vegurinn að pallinum er í eigu Atlantshafsbandalagsins. Opnuðu starfsmenn Gæslunnar veginn upp á fjallið með aðstoð verktaka fyrir nokkrum dögum. Erfiðlega gekk að fá efni til vegaviðhaldsins á Vestfjörðum, að sögn Jóns B. Guðnasonar hjá Landhelgisgæslunni.

„Við ryðjum snjó, lögum ræsi og viðhöldum veginum í byrjun sumars ár hvert til að tryggja rekstur ratsjár- og fjarskiptastöðvar Atlantshafsbandalagsins á Bolafjalli,“ segir Jón.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.

Opnun pallsins verði síðar í mánuðinum

Ríkissjóður veitti í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða um 160 milljónum króna í smíði pallsins. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir rúmum 200 milljónum og brúar Bolungarvík bilið. Jón Páll bæjarstjóri segir að pallurinn muni laða fjölda gesta í bæinn og á Vestfirði. Allt sé klárt þess utan að tengja þurfi pallinn fast upp við fjallsbrúnina sjálfa.

„Þetta er svolítið eins og að smíða svalir á hús, það má ekki vera gat á milli því þá gæti einhver dottið niður,“ segir Jón Páll.

Vonir standa til að opnun pallsins verði síðar í mánuðinum en festingin milli bergsins og pallsins er fordæmalaust verkefni í byggingarsögu Íslendinga. Er því snúið að segja til um hvaða tíma verkið tekur og veltur að nokkru á veðri.

„Pallurinn verður gríðarlega góð kynning, hann er stærsta innviðafjárfesting í ferðaþjónustu á Vestfjörðum í langan tíma,“ segir Jón Páll.

Vegurinn upp á Bolafjall er viðkvæmur og gæti orðið kostnaðarsamt að halda honum opnum, ekki síst ef sprenging verður í umferð vegna tilkomu hans.

Gott samstarf hefur verið um framkvæmdina milli Landhelgisgæslu Íslands, utanríkisráðuneytisins, Bolungarvíkurbæjar og Vegagerðarinnar, að sögn viðmælenda. Enn er þó ekki búið að gera samkomulag um framtíðarfyrirkomulag vegarins eftir að útsýnispallurinn verður formlega tekinn í notkun.