Evrópubúar þurfa að búa sig undir meiri hitasveiflur, öfgafyllri úrkomu, tíðari stórviðri og ýmsar neikvæðar afleiðingar þeim tengdar, samkvæmt nýrri skýrslu sem Umhverfisstofnun Evrópu hefur gefið út.

Í skýrslunni segir að vaxandi hætta steðji að Evrópuríkjum vegna loftslagsbreytinga á næstu áratugum. Afleiðingarnar muni birtast með misjöfnum hætti eftir svæðum.

Enginn vafi er sagður á að loftslagsbreytingar af mannavöldum skýri tíðari öfgar í veðri. Í öllum ríkjum Evrópu megi fólk búa sig undir fleiri daga með miklum hita og öfgakenndari úrkomu. Íbúar í grennd við Miðjarðarhafið ættu sérstaklega að búa sig undir heitari sumur og tíðari þurrka.

Aukin eldhætta gæti skapast í Suður-Evrópu vegna úrkomu. Í Norður-Evrópu er sagt líklegt að árleg úrkoma og mikil úrkoma í einu, verði aukinn vandi. Það á einnig við um Ísland.

Árflóð gætu orðið vaxandi vandi. Áætlað er að yfirborðshiti sjávar hækki og sýrustig vatns muni aukast á öllum svæðum í Evrópu.

Breytingar á snjó og ísmyndun gætu leitt til breytilegra staðbundinna áhrifa. Hlýnun muni hafa neikvæð félags- og efnahagsleg áhrif á sum svæði í Evrópu sem gera út á skíðasvæði. Hætta á flóðum muni aukast á öðrum svæðum.

Þá eru miklar vindhviður sagðar geta valdið víðtæku tjóni á skógum, byggingum og samgöngu- og orkumannvirkjum.

Umhverfisstofnun Evrópu segir að skýrslan nýtist ekki síst stefnumótendum og sérfræðingum sem hafi áhuga á mati á loftslagsáhættu og aðlögunaráætlunum í Evrópu.