Samanlagt er áætlað að að verklegar framkvæmdir hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, sem fara í útboð á þessu ári, kosti 173 milljarða króna. Það er 65 milljörðum króna meira en á síðasta ári.

Þetta kom fram á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins sem fram fór í gær í samstarfi við Mannvirki, félag verktaka og Félag vinnuvélaeigenda.

Gangi áætlanir eftir er ljóst að opinberar framkvæmdir munu aukast um 60 prósent á milli ára og er það breyting frá samanburði milli 2022 og 2021 þegar var 15 milljarða króna samdráttur í fyrirhuguðum útboðum.

„Að mati Samtaka iðnaðarins er þessi aukning jákvætt framlag til hagvaxtar bæði á þessu ári og litið til framtíðar enda er mikilvægt að fjárfesting í efnahagslega mikilvægum innviðum sé næg og viðhaldi þeirra sinnt,“ segir SI.