Vöruútflutningur Íslendinga hefur stóraukist á síðustu þremur árum og á það jafnt við um sjávarafurðir, landbúnað og iðnað.

Samtals nam andvirði vöruútflutningsins tæpum 197 milljörðum króna fyrstu fjóra mánuði ársins 2020 en stendur nú í tæpum 319 milljörðum á sama tíma í ár.

Alls hafa útfluttar sjávarafurðir verið seldar til útlanda fyrir tæpa 118 milljarða fyrstu fjóra mánuði þessa árs miðað við ríflega 81 milljarð á sama tíma 2020. Aukningin er mest í útfluttu fiskimjöli, en söluandvirði þess hefur fjórfaldast á þessum tíma. Þá hefur lýsisútflutningur þrefaldast.

„Útflutningurinn er kröftugri en áður og þetta er mikil viðspyrna,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, en hún bendir á að á móti komi miklar og nánast fordæmalausar verðhækkanir á olíu.

Útfluttar landbúnaðarvörur, þar á meðal fiskeldið, seljast við nær tvöföldu verði ef fyrstu fjórir mánuðir þessar árs eru bornir saman við sama tíma 2020, en verðmætið fer úr rúmum ellefu milljörðum í rúma tuttugu milljarða.

„Þetta eru ánægjulegar fréttir og eitthvað sem við þurfum á að halda,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, en tekur undir varnaðarorð Heiðrúnar Lindar um verðhækkun á aðföngum.

Loks hefur söluvirði útfluttra iðnaðarvara aukist úr 99 milljörðum fyrstu fjóra mánuði 2020 í röska 174 milljarða fyrstu fjóra mánuði þessa árs, þar af hefur verðmæti útflutts áls tvöfaldast.

„Það segir sína sögu að fjórðungur gjaldeyristekna þjóðarbúsins í fyrra var vegna álútflutnings. Það skilaði sér í metafkomu Landsvirkjunar og hækkandi arðgreiðslum til ríkissjóðs. Enn og aftur kemur áliðnaðurinn sterkur inn þegar skórinn kreppir í íslensku efnahagslífi,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.